top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Grænmetisætur hafa oft smakkað kjöt hér hjá okkur“

Kaffi Kú, Eyjafjarðarsveit, kaffihús, norðurland, landsbyggð, nautabú, frumkvöðlastarf, Einar Örn Aðalsteinsson, Sesselja Ingibjörg Barðdal, úr vör, vefrit
Einar Örn Aðalsteinsson og Sesselja Ingibjörg Barðdal reka Kaffi Kú. Ljósmynd Kaffi Kú

Á bænum Garði í Eyfjarðarsveit er Kaffi Kú staðsett, en þar á bæ var hátækni lausagöngufjós byggt árið 2007, sem var eitt fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Bændurnir á Garði eru með marga áratugareynslu í að ala upp nautgripi, kjötvinnsla er á bænum og er kjötið þaðan í boði á veitingastaðnum. Hægt er að fylgjast með yfir þrjúhundruð kúm og kálfum í afslöppuðu umhverfi, þar sem kýrnar liggja á dýnum, fara í nudd og láta mjólka sig þegar þær vilja.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Einari Erni Aðalsteinssyni, framkvæmdastjóra Kaffi Kú á dögunum og forvitnaðist um starfsemina þar.

Einar, sem er bóndasonur og ólst upp á bænum segir undirrituðum að upprunalega hugmyndin hafi verið að leyfa fólki að koma og sjá hvað væri um að vera inni í fjósinu. Farið var af stað með starfsemina í september mánuði árið 2011 að sögn Einars og segir hann að strax hafi verið tekið mjög vel í framtakið sem vakti mikla athygli að hans sögn.

Einar segist hafa séð ákveðna möguleika þegar þau á bænum byrjuðu að mjólka með nýjustu tækni inni í fjósinu og fólk fór að koma og vilja sjá hvað ætti sér stað þar. Kona hans, Sesselja Ingibjörg Barðdal er með reynslu úr veitingageiranum, er lærður þjónn og segir Einar að sú staðreynd hafi gefið þeim það hugrekki sem þurfti til að fara af stað með þetta.

Kaffi Kú, Eyjafjarðarsveit, norðurland, landsbyggð, nautgripabú, kaffihús, frumkvöðlastarf, norðurland, úr vör, vefrit
Hægt er að fylgjast með yfir 300 kúm og kálfum í afslöppuðu umhverfi á Kaffi Kú. Ljósmynd Kaffi Kú

„Við töldum það vera nauðsynlegt fyrir fólk að sjá hvað færi fram hér og að tengjast við landbúnaðinn. Við töldum að það væri líka gott fyrir þennan iðnað að opna dyrnar og sýna hlutina. En svo hefur þetta þróast út í að við tökum fólk í leiðsögn, það koma hingað erlendir ferðamenn og svo erum við með þessa veitingasölu. Hér eru veitingar sem eru allar unnar frá grunni að staðnum, við notum kjötið og mjólkina og svo súrsum við gúrkurnar, auk þess sem grænmetisborgararnir eru unnir hér frá grunni á staðnum.“ segir Einar.


Samkvæmt Einari hefur verið stígandi í starfseminni ár frá ári og segir hann að árið 2018 sé fyrsta árið þar sem erlendir ferðamenn voru fleiri en innlendir. Hann segir að þau hafi unnið að því statt og stöðugt að fjölga erlendum gestum og að árlegur gestafjöldi hafi verið undanfarin ár um 40.000 manns, en frá árinu 2016 hefur verið heilsársopnun á Kaffi Kú.

Kaffi Kú, veitingastaður, Eyjafjarðarsveit, norðurland, landsbyggð, frumkvöðlastarf, kaffihús, úr vör, vefrit, nautgripabú
Afurðir beint af bænum eru í boði á veitingastaðnum. Ljósmynd Kaffi Kú

Að sögn Einars eru tveir til þrír aðilar sem eru að gera svipaða hluti, en að enginn sé að gera nákvæmlega það sama af þeim eru eins.

„Við ákváðum að nota það útsýni sem við höfum yfir kýrnar í fjósinu sem okkar söluvöru og úr varð þessi túr sem við köllum „Learn, feel and taste“ þar sem fólk getur farið niður í fjósið, klappað kálfunum og smakkað svo afurðirnar. Megin línan í gegnum þetta er þessi afþreying sem við teljum vera nauðsynlega, við erum meira að reyna að tengja okkur við það, það vantar svolítið upp á það hér á þessum slóðum.

En það hefur orðið mikil vakning í ferðaþjónustu í Eyfjarðasveit, það er t.d. nýlega stofnað ferðamálafélag þar sem eru skráðir 26 aðilar og er mikil samvinna þar á milli. Það er horft til okkar, enda erum búin að vera í þessu í nærri tíu ár og erum með þeim stærri í þessum geira þarna í sveitinni.“ segir Einar.

Kaffi Kú, Eyjafjarðarsveit, norðurland, landsbyggð, kaffihús, veitingastaður, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Einar segir að gaman sé að geta boðið upp á afþreyingu á svæði þar sem vantar upp á slíkt. Ljósmynd Kaffi Kú.

Einar segir það vera ótrúlega gaman að sjá hvað fólk sýni starfseminni mikinn áhuga og hvað fólk sé ótrúlega hissa á að heyra frásögn þeirra, bæði hvað varðar framleiðsluaukninguna sem orðið hefur með meiri og betri tækni og er kemur að heilbrigði dýranna. „Grænmetisætur hafa oft smakkað kjöt hér eftir að hafa heyrt okkar sögu, þau eru mjög ánægð að heyra og sjá hvernig við komum fram við dýrin.

„Það er auðvitað nýtt fyrir fólki að sjá að hér er allt sjálfvirkt hér, kýrnar láta mjólka sig sjálfar, það finnst fólki alveg stórmerkilegt og fólk er hissa að sjá hvað tæknin hefur komið dýrunum til góða. Þær láta mjólka sig fjórum sinnum á sólarhring, þetta hjálpar til og er engin kvöð fyrir skepnurnar, þetta er bara mikið betra fyrir þær.“ segir Einar að lokum.


Comments


bottom of page