top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Jólaverslun í heimabyggð

Updated: Apr 9, 2020


Góð mæting er hvert ár í íþróttahúsið á Þórshöfn á Langanesi. Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Nú styttist í að jólabrjálæðið hellist yfir okkur í formi auglýsinga, tónleika og alls kyns gylliboða. Útvarpsauglýsingarnar eru svo sannfærandi að ég var alveg að vera búin að sannfæra sjálfa mig um að á jólatónleika skyldi ég skunda í ár, þó svo að það séu 6 ár síðan ég lagði alveg af árlega kaupstaðarferð á aðventunni.


Sem barn var þetta æðislegt, allir saman á Akureyri og keypt öll ósköpin af matvöru og öðrum varningi.

Sem móðir varð þetta að einhverri kvöð sem bættist á allt annað, börn sem fara svo reglulega í kaupstað, fótboltakeppnisferðir og hvaðeina þurfa ekki á þessu að halda í desember. Kannski er ég bara að sannfæra sjálfa mig um það af því að mig langar frekar að vera heima.

Í aðdraganda af þessu kaupæði langar mig að segja ykkur litla sögu af tilraun með verslun í heimabyggð, tilraun sem varð að föstum viðburði sem nú er haldinn í tíunda skiptið í nóvember. Haust 2010 voru önnur jólin mín í heimabyggð eftir nokkurra ára fjarveru á meðan ég sótti mér menntun. Eftir að hafa kynnst jólamörkuðum erlendis í aðdraganda jólanna fannst mér tilvalið að prófa eitthvað slíkt. Þá hafði ég líka stundað vinnu á Húsavík, sem er næsti stóri byggðakjarni við Þórshöfn hvar ég bý. Gamli brandarinn um að Húsavík væri bara hraðahindrun á leiðinni til Akureyrar var ekki lengur í gildi því mér til undrunar fann ég þar landsins bestu skóbúð, raftækjaverslun og ýmislegt fleira.

Þórshöfn, Langanes, jólamarkaður, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, úr vör, vefrit
Þórshöfn, Langanes, landsbyggðin, jólamarkaður, úr vör, vefrit

Þannig að einn haustdag árið 2010 stikaði ég inná skrifstofu hjá Karen Konn, kjarnakonu í byggðarlaginu sem ryður á undan sér verkefnum. Og við kölluðum til fleiri. Buðum heimaaðilum, nágrönnum og Húsvíkingum að koma með verslanir og varning, og létum svo hugann reika með eitthvað fleira.

Úr varð kjaftfullt íþróttahús af verslunum, borð sem svignuðu undan varningi og dagurinn tókst með eindæmum. Foreldrafélag grunnskólans var kallað til með kaffihús, eina krafan var að það yrði eitthvað veglegt, hægt að fá flotta tertusneið og kaffi. Við höfum ekki þurft að skipta okkur frekar af því síðan og þetta er mikilvæg árleg innkoma fyrir foreldafélagið.

Áttundi bekkur blés í jólahappdrætti og er það síðan helsta söfnun þeirra fyrir útskriftarferð, dregið út á staðnum flottir vinningar.

Þórshöfn, Langanes, landsbyggðin, jólamarkaður, úr vör, vefrit
„Þvílíkur lúxus að geta verslað útiföt á sig og börnin, íþróttaföt eða skó í heimabyggð.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Þetta fyrsta ár var eftirminnilegast þegar einn ágætur starfsmaður í Víkurraf á Húsavík mætti galvaskur á staðinn, rogaðist inn með hvern flatskjáinn á fætur öðrum, 6 talsins ásamt haug af öðrum varningi. Það þyrmdi yfir mig þegar hann sagði „já og Gréta, ég ætla að selja þá alla“. Aumingja maðurinn ætti eftir að vera svo vonsvikinn. Dagurinn leið og hann seldi þá alla og gott betur, og hafa komið á hverju ári síðan. Fá símtöl „gætuð þið kippt svona með á jólamarkaðinn“. Lítil og stór raftæki, gjafavara, sjónvörp og allskyns. Þjónustulundin fyrir öllu og fá svo á sig svona sérvitringa eins og karl faðir minn sem keypti flatskjá aðeins ef það fylgdi heimkeyrsla og uppsetning með. Ekki málið. Vona samt að það séu ekki margir með svoleiðis sérþarfir.


Skóbúð Húsavíkur sló til í fyrstu umleitan, koma á Þórshöfn, jú því ekki.

Þvílíkur lúxus að geta verslað útiföt á sig og börnin, íþróttaföt eða skó í heimabyggð. Því við búum nefnilega ekki við það aðra daga ársins. Líkt og Víkurraf, hafa þau komið á hverju ári síðan því viti menn, hvað gerðist eftir þetta fyrsta ár. Það mynduðust tengsl. Kynning á verslun í heimabyggð.

Þau fóru að sjá Þórshafnarbúa, jafnvel meira frá nágrannabyggðunum á Raufarhöfn og Kópaskeri. Núorðið eru þetta fastir viðskiptavinir og hver skiptir máli. Í fámennum byggðarlögum skiptir hver einstaklingur máli ef boltinn á að haldast á lofti.

Þórshöfn, Langanes, landsbyggðin, jólamarkaður, úr vör, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, vefrit
Smákökumeistarinn er krýndur á hverju ári. Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Á hverju ári hefur þetta eitthvað þróast eða breyst, ýmsar hugmyndir verið prófaðar og misgáfulegar vissulega. Fólk komið og farið í undirbúningsnefndinni. Barnapössunin sem nemendafélagið býður uppá er kærkomin og vinsæl, fastur liður. Smakk frá Fjallalambi, okkar frábæra fyrirtæki kemur með smá jólailm með hangikjötinu. Smákökumeistarinn er krýndur, þar sem samkeppni er um bestu kökurnar, frábært starf að vera í þeirri dómnefnd. Eitt árið var þetta reyndar nýsköpunarkeppni um gulrótarafurðir eftir að gulrótarvinnslan Akursel flutti til okkar. Matvælaframleiðendur, handverksaðilar og hönnuðir hafa þarna frábært tækifæri til að kynna vörur sínar í heimabyggð.


Vissuð þið að það eru framleiddir vinnuvettlingar hjá fyrirtækinu Vöndu á Þórshöfn, þessir gömlu góðu ljósbláu og marglitu? Það er nefnilega ýmislegt til þegar að er gáð, þekkir þú alla framleiðslu í þinni heimabyggð? Sumir hafa tekið að sér verslun í umboði með góðum árangri, Almar jólamarkaðsstjóri mylur út bækur frá Óðinsauga, forlag sem sagði fyrir 5 árum jú, við getum prófað að senda ykkur nokkra kassa þvert yfir landið, og hefur gert á hverju ári síðan.

Þarna koma fataverslanir, snyrtivörur, handverk, hönnun, verkfæri, leikföng, veiðibúð ef vel árar svo eitthvað sé nefnt. Ekki endilega allt í einu en reynt er að horfa í fjölbreytileikann, oft hefur verið hnippt í einhverja til að reyna að fylla í göt.
Þórshöfn, Langanes, landsbyggðin, jólamarkaður, úr vör, vefrit
Góð stemning myndast iðulega á markaðnum og fólk ber saman bækur sínar. Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Það hafa verið tónlistarmenn, uppákomur, spákona, bjórkynning, tískusýning og ýmislegt óvænt eins og um árið þegar seldir voru hænuungar á staðnum, frábær innkoma. Það hafa verið óumræðanlega fyndnar uppákomur eins og þegar konan hringdi um árið og sagðist ætla að selja fæðingarmyndir. Markaðsstjórinn hváði við en játti henni um borðpláss, þorði ekki að spyrja út í svona persónulega söluvöru. Spurði okkur kvenkyns nefndarmeðlimi hvað þetta væri. Allir blank. Smá vandræðagangur en enginn þorði að hringja aftur og spyrja. Þegar hún svo mætti með myndir með ullar þæfingum, þæfingarmyndir, önduðu allir léttar, smá misheyrn.


Við höfum líka ýtt frá okkur viðburðum því við viljum ekki ofhlaða. Það gerist nefnilega allt of oft. Snjóboltaáhrifin og allt það, allt í einu orðið að heilli helgi. Prófaðir voru ýmsir tímar, núna er þetta fast í 5 tímum og fyrir þá sem hafa áhuga á hagfræðinni þá höfum við fengið lauslegar tölur frá söluaðilum og það fara einhverjar milljónir í gegn á þessum 5 tímum. Sem er gott en kannski ekki aðalatriðið þegar upp er staðið. Því þessi jólamarkaður er fyrst og fremst menningarviðburður. Börnin hlakka til í margar vikur, samt er ekki verið að mata þau á dagskrá eða leiktækjum, kannski er það samveran, léttleikinn.

Spennan þegar dregið er úr happdrættinu, eða að fara á kaffihúsið. Fjölskyldudagur. Nágrannar okkar frá nálægum þorpum eru duglegir að koma og gera sér glaðan dag. Síðast en ekki síst, þá ættu allir að vita nokkuð vel hvað fæst í sinni heimabyggð og þurfa ekki að leita langt yfir skammt.


Comentarios


bottom of page