Mold er gull jarðarinnar, gull sem við þurfum nauðsynlega til að rækta mat og garða. Það sem til fellur af lífrænum úrgangi á heimilum getur hver og einn séð um að endurvinna og nýta til að rækta fallegan garð, grænmeti eða kryddjurtir. Margir eru að spá í að gera eitthvað fyrir umhverfið en mikla fyrir sér að láta verða af því. Get ég látið matarafgangana verða að mold? Er það ekki voðalega sóðalegt verk? Sveitarfélagið ætti að gera það. Er það ekki? Sennilega er alltaf auðveldast að benda á það sem aðrir eiga að gera en það eru nokkrar auðveldar leiðir til að endurvinna lífrænan úrgang.
Fyrir þá sem vilja hafa hlutina einfalda og hreinlega er best að velja Bokashi tunnurnar. Þær fást í nokkrum verslunum sem selja hreinlætisvörur eða byggingarvörur. Auður Hafstað býr í Landbroti í Skaftárhreppi en það var systir hennar sem býr í 101 Reykjavík sem benti henni á að fá sér þessar litlu, sætu tunnur til að jarðgera. Tunnurnar standa í þvottahúsinu hjá Auði en gætu alveg eins verið í bílskúrnum, búrinu eða undir eldhúsvaskinum. Það er engin lykt!
Settið kostar innan við 15.000 kr með poka af efni sem á að sáldra yfir lífræna úrganginn þegar sett er í tunnuna. Þegar tunnan er full er hún látin bíða í tvær vikur og hin tunnan fyllt á meðan. Eftir tvær vikur fer Auður út með skólfuna, grefur holu og góssið hverfur þar ofan í og eftir nokkra mánuði er það tilbúið til að blanda því í mold.
Það getur verið gott að setja járngrind eða bretti yfir holuna til að hundarnir grafi ekki upp það sem var verið að grafa niður.
Reynsluboltar í endurvinnslu lífræns úrgangs eru þau Ester Anna Ingólfsdóttir og Guðmundur Óli Sigurgeirsson á Kirkjubæjarklaustri. Garðurinn umhverfis hús þeirra hjóna er glæsilegur en þar var lítill gróður þegar þau byggðu fyrir fjörutíu árum. Unga fólkið sem var að byggja í sama hverfi var margt áhugasamt um að nýta allt lífrænt og var með safnhaug eða aðrar aðferðir til að jarðgera.
Fyrst voru Ester og Óli með þrjá kassa í garðinum sem í fór allt lífrænt, bæði það sem kom úr eldhúsinu og það sem til féll í garðinum. Þegar einn kassi var fullur var fyllt í þann næsta. Kassinn rekinn saman á einu kvöldi úr afgangstimbri og eftir margra áratuga notkun var hann orðinn svo fúinn að hann varð sjálfur að mold! Ester og Óli keyptu þá botnlausa, fallega plasttunnu sem stendur í matjurtagarðinum.
Í hana setja þau allt sem til fellur af lífrænu, bæði matarafganga og garðaúrgang. Það þarf einstaka sinnum að hræra í tunnunni til að jarðgerist hraðar en að öðru leyti sér úrgangurinn um sig sjálfur og það tekur langan tíma, jafnvel mörg ár, að fylla tunnuna.
Mörg sveitarfélög sækja lífrænan úrgang heim á heimilin og jarðgera en það kostar tíma, akstur og peninga. Það er þó miklu betra en að þetta lífræna gull endi í urðun. Þegar fólk venst því að taka lífræna úrganginn frá er lítil lykt af ruslinu sem eftir er sem gerir ruslatunnurnar miklu snyrtilegri. Við getum öll lagt eitthvað af mörkum til að bæta umgengni okkar við náttúruna en hver verður að finna sína leið.
Texti: Lilja Magnúsdóttir
Commentaires