top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hvaðan ert þú?


Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir á Gunnarsstöðum,Þistilfjörður, landsbyggðin, hvaðan ert þú, pistill, úr vör, vefrit
Gréta Bergrún og amma Silla, Sigríður Jóhannesdóttir á Gunnarsstöðum. Amman sem sagði sögur, fór í fjöruferðir, vitjaði um net og fór í æðarvarpið með krakkastrolluna á eftir sér alla daga. Og spurði alla um uppruna og ættir. Ljósmynd úr safni Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur

Hvaðan ert þú? Þessa spurningu kannast allir við. Íslendingar byrja að rekja ættir sínar hvar sem komið er, allavega þótti það til siðs og þykir enn í sveitum landsins. Og spurningunni skalt þú svara og þekkja þitt kyn. Erlendis þykir fyndið að við höfum Íslendingabók og getum alltaf rakið okkur saman, kynnt sem stefnumóta app svo að við sofum ekki hjá frænda okkar. Átta sig ekki á hvaða menningararfur liggur í þessu. Við erum frá alls kyns stöðum, alls staðarfrá. Sumir rekja sig langt aftur í ættir, aðrir bara í næstu kynslóð. Sumir sækja persónu sína, einkenni og vellíðan í náttúru og staði, aðrir tengja sig meira við ættmenni. En öll þurfum við einhvers konar rætur til að skilgreina okkur.

Hvaðan ert þú vina? Spurningin var lögð fram við yfir morgunkaffi á Vaðbrekku á Jökuldal þar sem ég var gestkomandi að vorlagi ásamt vinkonu minni. Gamli bóndinn sem enn kom heim í dalinn sinn í sauðburð, svona í eftirlit að eigin sögn, var sá er spurði. Þessarar mjög svo eðlilegu spurningar. Sat þarna í köflóttu flónelskyrtunni, með kaffibolla í vinnulúnum höndunum en horfði á okkur síkvikum augum.

Vinur minn sem sat mér við hlið hafði fengið spurninguna á undan mér. „Ég er úr Reykjavík“ segir hann, já en hvaðan ertu er þá spurt á móti, „ég er bara úr Reykjavík, ömmur mínar og afar líka“. Nú já var svarið og svo sneri hann sér að mér í leit að áhugaverðara samtali. Vinurinn átti ekki einu sinni ömmu frá Vestfjörðum eða neinn leiðarþráð sem hægt var að elta.

„Ég er úr Þistilfirðinum, frá Gunnarsstöðum“ segi ég kímin, enda var ekki annað hægt eftir þessa snöggu afgreiðslu á vini mínum, vitandi að tengslamyndunin yrði aðeins önnur. Núúú já, segir sá gamli, ertu kannski dóttir Jóa. Og upp hófst spjallið. Tengslamyndunin. Þetta er svona „lingó“ sem sveitafólk kann, kannski ákveðið samskipta listform.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, pistill, landsbyggðin, Þistilfjörður, náttúra, úr vör, vefrit
„Sumir sækja persónu sína, einkenni og vellíðan í náttúru og staði, aðrir tengja sig meira við ættmenni.“ Ljósmynd úr safni Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur

Dóttir mín segir stundum að það sé eins og allir bændur landsins þekkist. Það er alls ekki svo en hún var fljót að læra að svara þessum spurningum hvar sem komið var við, af því að það var bara „alltaf“ verið að spyrja að þessu eins og hún orðaði það. Þetta er listform sem vonandi fellur ekki í gleymskunnar dá. Að þekkja sína ætt, sitt nærumhverfi, nágranna, söguna. Oft þurfti ég að grípa til þess þegar ég á tímabili átti það til að detta inní bæ hjá bændum og taka viðtöl fyrir Bændablaðið góða, sem lesið er spjaldanna á flestum bæjum.


„Já og segðu mér, ert þú lofuð“ segir sá gamli, grunsamlega stuttu eftir að ég spurði hann hvort hann væri til í að skutlast með mér að næsta bæ Aðalbóli að taka viðtal við bóndann. Ég kvað svo vera og áfram hélt kaffispjallið. Aldrei skyldi maður vanmeta þessar stundir, með eldra fólki að ræða um daginn og veginn. Hraustlega er gengið í bæinn og bóndi neðar úr dalnum birtist til að drekka morgunkaffið. Sá gamli segir tíðindi, rekur stuttlega uppruna minn og segist ætla að skutlast með mig að spjalla við bóndann á Aðalbóli. „Núúú“ segir bóndinn, „það er þannig já, en segðu mér, átt þú mann“! Þegar þarna var komið sögu var ekki annað hægt en að hlæja. Umhyggjan fyrir nágrannanum einhleypa var augljós og þeir lyftust alveg af spenningi að hafa föngulegan kvenkost að kynna honum. Allavega var greinilegt að þeir höfðu metið mitt ætterni standast kröfur.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, pistill, hvaðan ert þú, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Gunnarsstaðir, Jóhannes á Gunnarsstöðum
Jóhannes á Gunnarsstöðum að segja barnabörnunum til í að setja niður kartöflur. Ljósmynd úr safni Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur
Skemmst er frá að segja að sá gamli skutlaði mér að ræða við bóndann. Ég hugleiddi um stund að laumast til að taka lyklana úr bílnum svo hann myndi nú ekki bara skilja mig eftir, en sá ótti reyndist ástæðulaus. Sá gamli settist inní bæ, hjá húsfreyjunni sem komin var á tíræðisaldur en lét sér ekki muna um að baka vöfflur ofaní gestina og heimilisfólkið, enda mikið að gera eins og verða vill á sauðburðartíma. Húsfreyjan hafði þó ekki svo mikið að gera að hún léti vera að spyrja mig af hvaða fólki ég væri komin.

Þetta er menningararfur og sveitasiður sem má ekki hverfa landanum. Við þurfum að vita hverra manna við erum, og spyrja unga fólkið okkar. Krefja þau svara og kynda aðeins undir eðlilægri forvitni þeirra að þekkja kyn sitt. Við getum ekki alltaf talað bara um veðrið!

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, pistill, hvaðan ert þú, landsbyggðin, Þistilfjörður, úr vör, vefrit, fjölmiðill
„Sá gamli settist inní bæ, hjá húsfreyjunni sem komin var á tíræðisaldur en lét sér ekki muna um að baka vöfflur ofaní gestina og heimilisfólkið, enda mikið að gera eins og verða vill á sauðburðartíma.“ Ljósmynd úr safni Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttur


Comments


bottom of page