top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hugrenningar fortíðar í núinu


Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, hugrenningar fortíðar, Vestfirðir, náttúra, landsbyggðin, dagbók, úr vör, vefrit
„Nútímamaðurinn er stöðugt að leita að uppruna sínum og nýjustu straumar eru að finna sinn innri mann og vera í góðum tengslum við náttúruna.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Fyrir nákvæmlega 100 árum skrifaði frændi minn dagbók sem ég svo fann á háalofti foreldra minna nýverið og mér finnst ég heppin að hafa fundið hugrenninga þessa manns. Það er margt sem er honum hugleikið og þá helst veðrið og sjósóknin sem var lifibrauð manna árið 1920 en hann lætur ekki þar við sitja og ræðir um kirkjuna, sína andlegu líðan og okkar heillandi náttúru. Hér koma hundrað ára minningarbrot sem eiga uppruna sinn á Vestfjörðum.


Þann 23. maí 1920

“Hér var fermt í dag 24. börn. Gleðidagur er það fyrir prestinn og pokann hans, því nú láta prestar borga sér ríflega fyrir hvert barn sem þeir smeygja inn í hina svokölluðu guðsmannatölu með öllum þartilheyrandi skrípalátum. En lýðnum er vorkun, hann dansar eftir vanans og prestanna pípu og hverjir foreldrar keppast við að hafa sín börn sem smekklegast og best búin, þótt þau ekki kunni stakt orð í því, sem þau eiga að kunna og jafnvel sum varla Faðirvorið. Ferming er því vægast sagt fatasýning.”

Þegar ömmur okkar og afar hafa haldið því fram hversu hófstilt fermingin þeirra var, ekkert líkt því sem gersit nú á dögum, er ljóst að samtíðarmenn hafa ekki endilega verið á sama máli. Gjaldtaka presta og prjál í klæðaburði virðist vera eilífðar dægurþras.


Þann 28. mars 1921

“Ég var að lesa í allan dag.” Heldur svo áfram “Át og las, gerði ekki annað hugsaði ekki um annað. Mér líður vel líkamlega er hraustur og heilbrigður. En ég er veikur á sálinni veikur af leiðindum og þau leiðindi eru þess eðlis að þau verða ekki auð læknuð. Mig vantar einhvern sem skilur mig andlega, einhvern andlegan skildan mér mann eða konu sem skilur mínar leyndustu hugrenningar og tilfinningar því ég hefi afar næmar tilfinningar sem ég á hægt með að dylja bak við grímu stillingar og kæruleysis.

„Ég þrái aðallega samúð og skilning sem ekki er að finna í þá sambúð við þá sem ég umgengist hvorki konu minnar, móður minnar, barna minna eða annarra þeirra er ég lifi og starfa með. Það er bagalegt og leiðinlegt að vera misskilinn af öllum jafnvel þeim sem kallaðir eru vinir manns og vandamenn. Menn sem oftast líta á hina dökku hlið hlutanna þurfa öðrum fremur á samúð og sönnum kærleika að halda, þeirra tryggustu og bestu vinir eru þeir einir sem veita ljósi og yl inn í líf þeirra, en hversu fáir eru ekki þeir vinir sem hafa skilyrði til að geta það þótt þeir fegnir vildu. Agg og jag er það leiðasta sem ég heyri en verð þó tíðum að heyra í nánd við mig.”

Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, hugrenningar fortíðarinnar, dagbók, Vestfirðir, landsbyggðin, náttúra, úr vör, vefrit
„“Ég var að lesa í allan dag.” Heldur svo áfram “Át og las, gerði ekki annað hugsaði ekki um annað. Mér líður vel líkamlega er hraustur og heilbrigður.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Það eru hundrað ár síðan frændi minn reyndi að lýsa tilfinningum sínum, þunglyndi, sem í dag væru skilgreindar til hins ítrasta af sálfræðingum, félagsfræðingum, læknum og jafnvel samborgurunum. Það er þó áhugaverð staðreynd að það var í þessari viku að samþykkt var á alþingi að sálfræðiþjónusta væri hluti af heilbrigðisþjónustu ríkisins. Þetta þokast allt í rétta átt og þessi orð lýsa mjög vel líðan þeirra sem þjást af andlegum veikindum. “Mér líður vel líkamlega er hraustur og heilbrigður. En ég er veikur á sálinni veikur af leiðindum og þau leiðindi eru þess eðlis að þau verða ekki auð læknuð.”


Líðan fólks hefur líklegast lítið breyst í aldanna rás hinsvegar hefur ytri ramminn um hvaða tækifæri við höfum til að tjá þessa líðan breyst eftir tíðaranda kynslóðanna.


Þann 18. júlí 1918

“Setja upphækkaða lunningu á bátinn, því nú ætlum við út á færafiskirí, útí frelsið, útá ótæmandi og vært endanlega hafið, hafið sem heillar alla með töfraafli í blíðu og stríðu, útá hafið þar sem höfuðskeppnurnar hamast og æða í allri sinni taumlausu tign og mikilleik, útá hafið þar sem sólarlagið er fegurst og litprýðin dásamlegust, útí baráttuna og lífsstríðið, útí helkulda næturhrakviðrin og útí sólskinið og blíðviðrið, hvergi er maður eins frjáls nema á fjöllum uppi, þar er fjör og fegurð og sífeld tilbreytni fyrir glögt auga.”

Nútímamaðurinn er stöðugt að leita að uppruna sínum og nýjustu straumar eru að finna sinn innri mann og vera í góðum tengslum við náttúruna. Hann frændi minn skrifaði þessi fallegu orð og lísti mjög vel því sem við erum að leita að og tengslum okkar við náttúruna. Það er enginn ótti í þessum orðum þrátt fyrir ólíkar birtingamyndir náttúrunnar heldur ómæld virðing fyrir náttúruöflunum og þakklæti fyrir landið okkar.

Ég er þakklát fyrir að ég hef öll þau tækifæri sem forfeður mínir höfðu til að njóta landsins og náttúrunnar. Auk þess hef ég haft tækifæri til að mennta mig og búa við nútíma þægindi og mun í anda frænda míns halda áfram að hafa skoðanir á hlutum og stefna að því að gera líf okkar á Vestfjörðum gjöfult fyrir komandi kynslóðir.Comments


bottom of page