Það er margt um að vera á bænum Karlsstöðum í Djúpavogshreppi. Þar búa hjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson ásamt börnum sínum og hafa þau starfrækt síðastliðin fimm ár á jörð sinni tónleika- og veitingastað, gistiheimili ásamt menningarstarfsemi undir nafninu Havarí. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Berglindi á dögunum og forvitnaðist um hvernig gengi og hvað væri framundan hjá þeim hjónum.
Berglind segir að tónleikaröðin í Havarí vekji einna mestu athygli meðal landans og var dagskráin í sumar kynnt fyrir stuttu síðan. Í ár munu spila hjá þeim hljómsveitirnar Hjálmar, Mr. Silla, Prins Póló, Geirfuglarnir og FM Belfast. Þá munu þau einni fá til sín kabarett sem kallar sig Búkalú.
Að sögn Berglindar myndast alltaf einstök stemning þegar þessir tónleikar eru og segir hún að það sé eitthvað við það þegar fólk kemur saman á sveitabæ langt frá næsta þéttbýli. Að hennar sögn mætir fólk tímanlega, tjaldi jafnvel á staðnum, fari í sjósund og úr verður lítil hátíð sem sé mjög skemmtilegt.
Líkt og áður sagði reka þau einnig veitingastað þar sem þau bjóða upp á eigin framleiðslu, bæði grænmeti sem þau rækta sem og hinar margrómuðu Bulsur. Bulsur eru grænmetispulsur og er meginuppistaðan í þeim lífrænt ræktað bankabygg frá Vallanesi og nýrnabaunir. Samkvæmt Berglindi reyna þau að nýta eins mikið hráefni úr nærumhverfinu og hægt er og gera þau alltaf árlegan sumarmatseðil. „Við erum að vinna í sumarmatseðlinum einmitt þessa dagana og fáum hjálp frá kokki frá Seyðisfirði sem heitir Garðar Bachmann sem er ótrúlega flinkur.
„Þemað hjá okkur er að vera með eins mikinn staðbundið hráefni og hægt er og nýta okkur íslenska framleiðslu. Sérstaða okkar er að við erum með grænmetis- og vegan rétti og svo erum við orðin þekkt fyrir vöfflurnar okkar og hjónandssæluna svo það finna allir eitthvað við sitt hæfi.“ segir Berglind.
Á gistiheimilinu í eru eru fimm einkaherbergi og svo eitt herbergi með kojum. Yfir hásumarið starfa sjö manns við starfsemina og segir Berglind að starfsmannafjöldi fari mikið eftir árstíðum. Yfir köldustu vetrarmánuði séu einn – tveir starfsmenn, því opið er allt árið og það kemur fyrir reglulega að þau þurfi að bregða sér af bæ til að sinna verkefnum sem tengjast tónlist eða öðru á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt Berglindi var það skrýtin saga hvernig þau enduðu á þessum stað á sínum tíma. Hún segir að þau hjón hafi búið á Seyðisfirði í kringum 2008 í tæp tvö ár. Svo breyttust aðstæður þeirra og þurftu þau að flytja aftur til Reykjavíkur. Eftir það var ekki aftur snúið, þau voru ákveðin í að búa aftur á landsbyggðinni og að þessu sinni í sveit. Leituðu þau lengi að réttu jörðinni og vildu gjarnan vera við sjó, á milli fjalls og fjöru og vildu hafa ákveðið mörg hús til að vinna með. Berglind segir að þau hafi þó viljað vera nærri höfuðborginni því þar sé fjölskylda þeirra og tengslanet.
„En það gekk ekki eftir og við enduðum hér og það er bara dásamlegt því þetta er ótrúlegur staður. Það fyndna er að mamma hans Svavars er frá næsta bæ, Berunesi. Þetta er samt hálfgerð tilviljun, en það reyndist auðvitað vera mikil gæfa því þar er frændfólk hans ennþá og foreldrar hans koma mikið, þannig að það er gott samband þarna á milli bæjanna.“ segir Berglind.
Aðspurð segir Berglind að starfsemin í Havarí hafi líkast til haft einhver áhrif á samfélagið. Hún segir að því meiri fjölbreytni sem sé fyrir hendi, því betra sé það fyrir samfélagið, auk þess sem að samkeppni sé líka góð, því þá átti aðrir sig á að það þurfi jafnvel að gera eitthvað betra hjá sér. Einnig nefnir hún að um leið og einhver geri eitthvað jákvætt sem vekur athygli, þá bæti það sjálfsmynd svæðisins. „Þegar fleiri eru að gera eitthvað þá kemur meiri metnaður inn á svæðið og það smitar út frá sér. Fólk getur talið upp að hjá þeim sé þetta svona og svona og það gerir staðinn eftirsóknarverðan til að búa á og til að heimsækja.
„Á svæðum sem eru afskekktari en önnur, eins og Austfirðir og Vestfirðir, þá þarftu að gera eitthvað sem er öðruvísi og það er að aukast. Þegar fólk er komið með valkvíða þá veistu að við erum að gera góða hluti.“ segir Berglind.
Berglind segir að hún sjái marga í nærumhverfi sínu taka skrefið í að flytja frá borg í sveit. Á Djúpavogi sé mikið af ungu fólki sem hafi farið í burtu á sínum tíma til að mennta sig en sé nú komið aftur. Hún bendir á að nú sé farinn að verða húsnæðisskortur á landsbyggðinni sem bendir til þess að eitthvað sé að breytast. „Það virðast líka einhvernveginn allir ganga með þessa hugmynd í maganum, að flytja á landsbyggðina. Og ég hvet fólk, þótt það sé ekki nema ár eða tvö og prófa að búa úti á landi.
„Það er alltaf verið að tala um þessi skil á milli landsbyggðar og höfuðborgar og ég held að það geti orðið gott að fólk taki þetta skref. Þá getur það sett sig í spor þeirra sem eru að eiga við lélega vegi og lélegt símasamband og afgreiða það ekki sem landsbyggðarvæl.“ segir Berglind.
Að sögn Berglindar hefur reynsla hennar og Svavars af því að búa úti á landi gefið þeim dýpt í að skilja muninn á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Hún segir að þau hafi farið í slag varðandi samgöngubætur og baráttu fyrir þriggja fasa rafmagni ásamt ljósleiðara væðingu. „Þessi byggðastefna segir ávallt að það eigi að efla hitt og þetta. Svo skoðum við áætlanirnar og þriggja fasa rafmagn var t.d. á áætlun árið 2035!
„Við hugsuðum að það væri verið að spila með okkur, þetta má ekki ganga svona hægt ef fólk meinar eitthvað með þessu. Ef við ætlum að halda byggð út um allt land þá verða grunnstoðirnar að virka og atvinnuvegurinn að koma svo með sjálfbærari hætti heldur en í svona stórum skala eins og víða er verið að berjast fyrir og er þegar orðið.“ segir Berglind að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments