top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hamskipti heimilanna


Eiríkur Örn Norðdahl, Hamskipti heimilanna, pistill, úr vör, vefrit
„Þú stendur undir fjalli og nú ertu með snjóþotu í annarri og börnin þín tvö í hinni en snjórinn sem var hérna þegar þú lagðir af stað er ekki hérna lengur. Grasið er gult, veröldin er blaut og lyktar einsog þú hafir gleymt einhverju aftast í ísskápnum.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þú stendur undir fjalli sem er skellótt af snjóblettum – allt hlýnar og frýs til skiptis – og eitt augnablik finnst þér einsog þú hafir fundið upp á þessu og fjallið sé löngu hætt að vera til nema í höfði þér. Heimkynni, einsog þjóðerni, eru sköpunarverk – hugmynd – þau eru ekki handföst og þetta fjall er aldrei eins tvo daga í röð, frekar en raunar þú sjálfur. Þú sem skrifar fjallið. Það sem virðist hafa verið til að eilífu er aldrei þarna nema augnablik og augnablik í senn. Þegar þú lítur undan hverfur fjallið, þegar þú lokar augunum hverfur allt.


Svo opnarðu augun aftur. Þú stendur undir fjalli ásamt þúsundum annarra á meðan lækir streyma um klakabönd, það er nýkominn dagur og bráðum brestur nóttin á. Suma dreymir um sléttur, sólslegna steinveggi, háhýsi, framandi lyktir, önnur tungumál, tónleikahallir og iðandi verslunargötur; önnur heimkynni. Sumir stara á fjöllin og búa sig undir að umpotta ræturnar, flytja, pakka saman, segja upp leikskólaplássum og sækja um leikskólapláss, losa sig við hálfa búslóðina á nytjamörkuðum og Facebookgrúppum til þess eins að sanka að sér nýjum óþarfa annars staðar. Einsog fjöllin skipta öll heimkynni reglulega um ham – það eina sem er mannlegra en að fara er að koma.


Aðrir hengja upp myndir af fjöllum á fjarlæga veggi. Tala fjálglega um fjöllin á mannamótum. Verð að fara að sjá fjöllin, segja þau; sjáðu þessi fjöll, segja þau, þetta eru fjöllin mín. Taka varla eftir háhýsunum, sólslegnum steinveggjunum, heyra varla tungumálin eða tónlistina fyrir söknuði eftir einhverju öðru, eftir fjöllum, einsog gestir í matarboði sem taka aldrei af sér af ótta við að gleyma þá að fara heim.


Þú stendur undir fjalli og þegar maður stendur undir fjalli getur maður ekki annað en tekið rómantíkina alvarlega. Þú óttast að renna saman við exótíserandi staðalmyndir, óttast ofbeldi hins glögga gests auga, rómantík bergnuminna ferðalanga, að þú farir á endanum að látast vera sá sem aðrir halda að þú sért – maður undir fjalli – og gleymir að vera sá sem þú hélst þig vera. Þú óttast að eftir því sem hugmyndir þínar um heimkynni verði háleitari því meira útiloki þær þá sem eiga erfiðara með að tilheyra, þá sem fyllast ekki Wagnerískri ofurmennisþrá við þessar fjallsrætur og fá ekkert nema hversdagslegan hálsríg af því að stara á toppana. Samt veistu að hversdagslegur hálsrígurinn, þreytan á þessu fjalli dag eftir dag – sama hversu síbreytilegt það verður – sami göngutúrinn, sömu andlitin, sama malbikið, gráleitur hversdagurinn þar sem meira að segja bílnúmer ókunnugra eru orðin kunnugleg – þú veist að þetta er ekki minni hluti af tilfinningu þinni fyrir heimkynnum en þessi stöku skipti sem þér tekst að anda að þér himinhvolfunum. Það er líka leiðinlegt að vera heima hjá sér. Það skiptir ekki minnstu máli – að það sé svolítið leiðinlegt af og til.


Þú lokar augunum og opnar þau aftur. Þú stendur undir fjalli og starir upp í snjóflóðavarnirnar sem eru þér stöðug áminning um dauðann sem fjallið hefur fært þér, áminning um fortíðina, framtíðina, ógnina, rýmingaráætlanir og hús sem hafa verið mulin niður í tannstöngla. Þú starir á hamrana gráleita af hrími þar sem fólk hefur lent í sjálfheldu og raðar upp snjóhengjunum í huganum, fylgir spýjunni eftir með augunum niður á veg, niður í sjó. Þegar það er hvorki skemmtilegt né leiðinlegt er það eitthvað allt annað.


Þú stendur undir fjalli og nú ertu með snjóþotu í annarri og börnin þín tvö í hinni en snjórinn sem var hérna þegar þú lagðir af stað er ekki hérna lengur. Grasið er gult, veröldin er blaut og lyktar einsog þú hafir gleymt einhverju aftast í ísskápnum. Þú snýrð ekki við heldur bíður, því þú veist að þú þarft ekki nema að loka augunum og opna þau til þess að snjórinn verði kominn aftur.bottom of page