top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Nánast öll hlíðin í fjallasaltinu


Hafsalt, salt, frumkvöðlastarf, Djúpivogur, Austurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Birkir Helgason, stofnandi Hafsalts. Ljósmynd Hafsalt

Birkir Helgason frá Djúpavogi lenti í bílslysi í Englandi árið 2017 og datt í kjölfarið útaf vinnumarkaðnum. Eftir að hafa fengið ráðleggingu frá lækni sínum um að taka sér eitthvað nýtt fyrir hendur fyllti hann tveggja lítra gosflösku af sjó og las sér til um á netinu um hvernig hægt væri að búa til salt. Nú einu ári síðar hefur Birkir stofnað fyrirtæki og saltið hans, Hafsalt, er til sölu víða um land.


Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Birkis á dögunum og forvitnaðist um hvernig þetta kom til. „Ég gat bara ekki verið að gera ekki neitt, ég hafði unnið sem kokkur lengi og þetta var kjörið tækifæri því það var enginn að búa til salt hér á Austurlandi. Ég hugsaði því, af hverju gríp ég ekki boltann og út úr þessu hefur orðið til eitthvað sem ég get gert.“ segir Birkir.


Birkis segist vera að sjóða um 120 lítra á sólarhring í dag og úr því fái hann 4,5 kg af salti. Ætlun hans er að fá sér stærri pönnu undir framleiðsluna en hann er með þetta í pottum núna. Birkir segir að gott væri að geta notast við litla sundlaug sem tæki 300-400 lítra í einu. „Svo veit ég að Djúpavogshreppur er að reyna að fjárfesta í vottuðu eldhúsi og þá mun ég reyna að vinna alla mína vinnu heima á Djúpavogi.

„Eins og er þá næ ég í geislaðan sjó frá fiskvinnslunni hér á svæðinu, en allur fiskurinn sem fer þar í gegn er unnin úr geisluðum sjó þar sem búið er að drepa örverur í sjónum. Svo fer ég til Reyðarfjarðar og vinn sjóinn þar. Ég geri það á veitingastaðnum þar sem ég vann eftir að ég lenti í slysinu. En draumurinn væri að geta unnið þetta allt bara heima í Djúpavogi.“ segir Birkir.

Framleiðsla á Hafsalti hófst í mars mánuði síðastliðnum og fór varan í sölu fljótlega í kjölfarið. Í dag er Hafsalt fáanlegt á Selfossi, í Borgarnesi, á Akureyri, á Egilstöðum, í Djúpavogi auk þess sem Birkir hefur sent beiðnir hingað og þangað varðandi að selja í búðum víðar. Hann bætir því við að það séu fullt af veitingahúsum sem vilji fá saltið hans til sín, þannig að orðið spyrst greinilega út að sögn Birkis.


Hafsalt, salt, frumkvöðlastarf, Djúpivogur, Austurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þrjár tegundir frá Hafsalti eru komnar á markað. Ljósmynd Hafsalt

Í dag er mikið talað um kolefnisspor og mikilvægi þess að versla vöru sem framleidd er í heimabyggð. Birkir segist finna vel fyrir þessu varðandi sína framleiðslu. „Það vilja allir versla í heimabyggð, ég finn það vel. Ég er auðvitað litli maðurinn í salt bransanum, það eru fyrirtæki í þessum geira hér á landi sem hafa verið í þessum bransa í mörg ár. Það að ég hafi komist inn á þennan markað eins og ekkert sé er auðvitað æðislegt.

„Ég talaði við sölumann hjá Saltverki í sumar og hann tók mér opnum örmum. Hann kom hingað í kaffi og við spjölluðum saman í hálftíma um salt! Það er gaman að fá viðbrögð og ráð hjá þessum stóru aðilum.“ segir Birkir.

Í dag eru í boði þrjár gerðir af salti, birkisalt, með birkilaufum, hreint sjávarsalt og svo fjallasaltið. Í fjallasaltinu er nánast öll hlíðin að sögn Birkis, en þar má finna fjölmargar jurtir. „Svo er að koma ný vara hjá mér núna á markað, ég er bara að bíða eftir límmiðunum. Það er rauðvínsalt, það er enginn með þannig hér á landi og mig langaði að vera fyrstur með það. Ferlið er þannig að ég sýð vínið og tek áfengið úr því. Svo læt ég það kólna, set saltið í það og þurrka það í fjóra sólahringa.“ segir Birkir.


Hafsalt, salt, Birkir Helgason, frumkvöðlastarf, Djúpivogur, Austurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Birkir sýður 120 lítra af sjó á sólarhring sem skilar honum 4,5 kg af salti. Ljósmynd Hafsalt.

Birkir lét saltið ekki bara duga heldur býður einnig upp á aðra vöru, kryddsmjör. Það kom til þegar hann var að leyfa fólki að smakka saltið á sínum tíma, þá útbjó hann kryddsmjör og setti á brauð og saltið svo ofan á. Útkoman er vægast sagt góð og er fólk ekki síður sólgið í smjörið. „Ég bræði smjörið og set kryddjurtir ofan í það og er með fjallasmjör og birkismjör. Þetta átti bara að vera prufa og svo fór með þessa prufu á sýningu á Vopnafirði. Menn voru svo æstir í að kaupa prufuna af mér þannig að ég ákvað að fara að búa þetta til. Mjólkursamsalan er eini aðilinn sem gerir kryddsmjör og þau nota alltaf hvítlauk en ég nota ekkert þannig.

„Það var maður í gær að ferðast hér á Djúpavogi sem spurðist fyrir um kryddsmjörið frá mér, honum hafði verið sagt að hann þyrfti að kaupa besta kryddsmjör landsins áður en hann færi aftur í bæinn. Það er gaman að heyra svona lagað.“ segir Birkir að lokum.

Hafsalt, salt, kryddsmjör, frumkvöðlastarf, Djúpivogur, Austurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Kryddsmjörið frá Hafsalti er ekki síður vinsælt og hefur orðspor þess borist víða. Ljósmynd Hafsalt.


Comentarios


bottom of page