top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Áfram róum við galvösk og glöð!

Í síðustu viku birtist grein númer 120 hér í vefritinu. 120 greinar, það er ágætis tala, sérstaklega þar sem mér líður eins við höfum ýtt úr vör í gær! En það hefur talsvert vatn runnið til sjávar síðan þá og erum við í teyminu á bakvið vefritið stolt hversu vel hefur til tekist. Við höfum fjallað um málefni í okkar málaflokkum um allt land, að höfuðborginni undanskilinni, eins og stóð alltaf til.


Við leggjum við upp með að vera rólegur fjölmiðill, þar sem fólk getur gefið sér tíma að lesa vel unnið og ítarlegt efni sem birtist reglulega og lögð er áhersla á gæði í myndefni og texta, höfum við ekki vikið frá þeirri stefnu frá fyrsta degi. Enn sem komið er skrifar undirritaður megnið af greinunum en reglulega birtast þó pistlar frá lausapennum og erum við afar stolt af þeim glæsilega og fjölbreytta hópi. Í sumar bættust þrír nýjir pennar við upphaflega hópinn, það eru þau Bryndís Sigurðardóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Elfar Logi Hannesson og hafa þau nú þegar sett mark sitt á vefritið svo eftir er tekið ásamt hinum pennunum okkar.


ÚR VÖR, vefrit, tímarit, fjölmiðill, landsbyggðin, fréttabréf, menning, list, nýsköpun, frumkvöðlastarf, Aron Ingi Guðmundsson
Frá kynningarferðalagi vefritsins á Vestfjörðum síðastliðið sumar. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

En ég ætla ekki að skrökva að ykkur kæra fólk, þetta er hark. Staðreyndin er að það er afar erfitt að vera lítill og óþekktur (ekki óþekkur!) aðili á fjölmiðlamarkaði. Og sérlega erfitt þegar maður syndir svolítið á móti straumnum eins og við gerum varðandi lengd greina og efnistök. Það eru ekki allir alltaf tilbúnir að lesa 800 orða grein um menningu, listir, nýsköpun eða frumkvöðlastarf á landsbyggðinni en við reynum að sinna þeim sem hafa áhuga á þessum málum. Allstaðar er okkur vel tekið og ófá samtöl hefur maður tekið þátt í um hversu mikil þörf sé á miðli sem þessum.

Sú staðreynd hvetur okkur áfram og það er markmið okkar að gera vefritið sjálfbært á næstu misserum varðandi að fá inn auglýsingatekjur á móti útgjöldum. En svo að það verði þurfum við að reyna með besta hætti að auka áhorfendatölur og þar getum við fengið hjálp hjá ykkur! Ekki hika við að tala um okkur eða deila greinum á samfélagsmiðlum hægri-vinstri, það virkar, við lifum jú á gervihnattaöld!


ÚR VÖR, vefrit, landsbyggðin, menning, listir, nýsköpun, frumkvöðlastarf, tímarit, fréttabréf, Julie Gasiglia, Aron Ingi Guðmundsson
Julie Gasiglia, vefhönnuður vefritsins, tekur mynd í Ósvör síðastliðið sumar. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þessa dagana stendur yfir vinna við að fjármagna rekstur næsta árs og munum við setja alla anga út varðandi það. Það eru ýmsar hugmyndir uppi sem tengjast því og mun ég vafalaust leyfa ykkur að fylgjast með og taka þátt í þeirri vinnu með okkur.


En þangað til þá vona ég að þið njótið vefritsis og lífsins og munið að vera góð við náungann!


Kær kveðja,


Aron Ingi, ritstjóri.


Comments


bottom of page