top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ást og hlýja mikilvæg fyrir plönturnar


Fræ til framtíðar, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Vestfirðir, landsbyggðin, nýsköpun, matarræktun, úr vör, vefrit
Arnhildur Lilý Karlsdóttir útskýrir fyrir skólabörnum ferlið við ræktun. Ljósmynd Fræ til framtíðar

Verkefni sem snýr að ræktun matjurta í skólum á Vestfjörðum er nýhafið og er það unnið af sprotafyrirtækinu Fræ til framtíðar í samstarfi við Landbúnaðarháskólann, og er styrkt af Matarauði Íslands. Verkefnið er tilraunaverkefni til eins árs þar sem þriðju bekkingum í fimm skólum á Vestfjörðum verður kennt að rækta sér til matar. Skólarnir sem um ræðir eru grunnskólarnir í Bolungarvík, Ísafirði, Þingeyri, Tálknafirði og Patreksfirði. Hugmyndin er að opna augu nemenda og auka meðvitund um hvaðan matur kemur, hvað þarf til að rækta, hvað felst í sjálfbærni, matarsóun, umhverfisvernd og fleira.


Forsvarsmenn verkefnisins eru þau Gunnar Ólafsson og Arnhildur Lilý Karlsdóttir og heyrði blaðamaður í Arnhildi á dögunum og forvitnaðist um hvernig viðtökurnar væru og hvernig gengi. Arnhildur segir að þau séu búin að fara í fyrstu ferð í alla skólana, sem séu nokkuð ólíkir. Í Bolungarvík, á Ísafirði og á Patreksfirði er um að ræða heilan þriðja bekk, en á Þingeyri og í Tálknafirði eru ákveðin grunnstig, í Tálknafirði er verkefnið kynn tí þriðja til fimmta bekk og á Þingeyri í fyrsta til þriðja bekk.


Að sögn Arnhildar er kerfið sem notast er við hannað og smíðað af Gunnari samstarfsmanni hennar, sem er forsvarsmaður frumkvöðlasetursins Djúpið í Bolungarvík, en Djúpið er með ýmsa ýsköpun i matvælaiðnaði á sínum snærum. Arnhildur bætir við að FabLab á Ísafirði hafi verið ómetanlegur stuðningur í að koma verkefninu og kerfinu í það horf sem það er í núna, en um lóðrétt vatnsæktunarkerfi er að ræða, sem er tveir metrar á hæð og úr því standa fimm rör með 35 ræktunarbolla. Krakkarnir hófu að rækta grænar baunir, basil og salat og segir Arnhildur vera góðan gang í ræktuninni.


„Við sjáum fyrir okkur að verkefnið haldi áfram og á þann hátt að þau sem eru í þriðja bekk núna taki kerfið með sér í fjórða bekk og haldi áfram þar og við byrjum aftur í þriðja bekk í sömu skólum.

Fræ til framtíðar, matrækt, nýsköpun, Vestfirðir, Fablab, Djúpið, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Um er að ræða lóðrétt vatnsræktunarkerfi að ræða, tveggja metra hátt með 35 ræktunarbolla. Ljósmynd Fræ til framtíðar
„Við viljum að þetta skjóti rótum sem víðast, því það sem vakir fyrir okkur er að tengjast meira því sem við neitum, sjá hvaðan það kemur og hvað þarf til að láta það verða til. Þetta tengist mataröryggi, sjálfbærni, kolefnisspori, að vera meðvitaðri neytendur og að vera í meiri snertingu um hvað það er sem við erum að gera við matinn okkar.“ segir Arnhildur.

Verkefnið hófst í janúar mánuði síðastliðnum og mun halda áfram út þessa vorönn í skólanum. Upplýsingum er safnað frá kennurum skólanna og veita þeir ómetanlega aðstoð við að betrumbæta verkefnið að sögn Arnhildar. Framkvæmd verkefnisins er þannig að börnin byrja að planta fræjum og fá spírur í gang. Þegar þær eru tilbúnar með nægilega langar rætur þá er hægt að setja þetta í kerfið þar sem vatn með næringarlausn rennur um ræturnar í fjórar til fimm vikur og ætti það sem ræktað er að vera fullsprottið að loknum þeim tíma.


„Á meðan á þessu stendur hafa kennarinn og börnin skýrslubók þar sem þau skrá niður ýmsar mælingar. Þau mæla hitastig á vatningu, mæla svokallað EC gildi sem er rafleiðni, eða næringargildi og þau mæla PH gildi sem er sýrustig. Þetta mæla þau á hverjum degi og skrifa niður athugasemdir ef einhver frávik eru. Við hvetjum þau til að vera frjó og hugmyndarík og þora að prufa eitthvað nýtt, t.d. að lengja ljóstíma um einhverjar mínútur, eða minnka tímann.“ segir Arnhildur.

Fræ til framtíðar, nýsköpun, matrækt, tilraunaverkefni, Djúpið, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Til þessa hefur verið ræktað basil, salat og grænar baunir. Ljósmynd Fræ til framtíðar

Samkvæmt Arnhildir eru krakkarnir virkilega áhugasöm um verkefnið, sem sé frábært að sjá. Hún segir að kennurunum finnist þetta ekki síður skemmtilegt, þeir sjá mikla möguleika í samþættingu námsgreina því þetta kemur inn á móðurmál og raungreinar.

„Svo er hægt að skrifa ævintýri um baunir og það er hægt að búa til orðabanka um ræktun og plöntur. Við viljum hvetja þau til að taka inn tungumál þeirra sem eru tvítyngdir og þeir sem hafa önnur tungumál fá upphafningu á sinni menningu með þeim hætti. Svo eru þetta mælingar á ýmsu tagi, það er hægt að gera súlurit og gera svokallað „timelapse“ myndband í listum eða vali, þanig að það er hægt að tengja þetta inn á svo ótrúlega marga þætti sem er mjög skemmtilegt.

„Ég held að það sé bara ekki hægt að finnast þetta verkefni ekki spennandi eða mikilvægt.“ segir Arnhildur.

Fræ til framtíðar, nýsköpun, Gunnar Ólafsson, Djúpið, matrækt, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Gunnar Ólafsson fer yfir ferli ræktunarinnar með skólabörnum á dögunum. Ljósmynd Fræ til framtíðar

Kerfið er alltaf uppsett í skólastofunni og nemendurnir bera ábyrgð á því. Arnhildur segir að þetta sé þeirra verkefni og þeirra plöntur og kennarinn er þeim til aðstoðar. Hún segir að forsvarsmenn verkefnisins vilji ekki skapa neinn helgidóm um það, það á að vera hversdagslegt og þegar eitthvað fer að spretta þá má endilega klípa sér smá salat og fá sér eða eina baun.

„Það er kemmtilegt að við kennum börnunum að plönturnar þurfa sól, næringu og vatn. En það sem er ekki síður mikilvægt er ást og umhyggja og við reynum að hvetja krakkana til að sýna plöntunum ást og hlýju og tengjum það við að þegar ást og hlýja er til staðar þá vex allt og dafnar. Við þráum sjálf þessa hlýju og plönturnar gera það líka, þetta ýtir undir samkennd og undir falleg samskipti.“ segir Arnhildur.

Arnhildur segir að þau Gunnar finni fyrir miklum áhuga annarsstaðar frá og bætir við að þau hafi farið á nokkra staði til að halda kynningu um verkefnið. Hún segir að þau vildu óska sér að þau gætu farið á fullt á fleiri stöðum, full ástæða sé til þess, en þau hafi bara ekki fjármagn til að vera á fleiri stöðum eins og er. „Þetta er hugmynd sem er ekki alveg ný af nálinni. Gunnar gerði svipaða tilraun í einum leikskóla þegar hann bjó í Noregi og fékk góðar niðurstöður þar. Þetta var svo eftirsóknarvert að krakkarnir voru farin að stelast í garðinn til að sækja sér grænmeti, þegar það var farið að gerast þá fannst honum takmarkinu náð.“ segir Arnhildur að lokum.

Fræ til framtíðar, Djúpið, Gunnar Ólafsson, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Vestfirðir, matrækt, nýsköpun, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Haldið er vandlega utan um skráningar í ræktuninni og er það mikilvægur hluti í ferlinu og getur nýst fleirum síðar meir. Ljósmynd Fræ til framtíðar


Comments


bottom of page