top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Fólkið bak við tjöldin: Vestfirðir


Patreksfjörður, kvöldgnga, landsbyggðin, Vestfirðir, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Kvöldganga í Patreksfirði á fallegu vorkvöldi. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Sumardagurinn fyrsti rann upp og þetta árið með alvöru sumardegi þar sem sól var hátt á lofti og tuttugu stiga hiti. Frídagur hjá fólkinu í þorpunum á Vestfjörðum. Frídagar hafa reyndar sérstaka merkingu í öllum þorpunum því upp vaknar hópur fólks sem drífur áfram stórkostlegt sjálfboðaliðastarf sem er í raun límið sem gerir þorpið að samfélagi.


Fánar blöktu við hún því björgunarfélagið hefur það hlutverk að draga upp fána á opinberum stöðum og fátt er eins hátíðlegt í morgunsárið og blaktandi fáni sem sleikir sólina.

Presturinn var búinn að gera sig klárann því það var þjóðbúningamessa þar sem konurnar mæta í glæsilegum þjóðbúningum sem margar hverjar saumuðu sjálfar og svo hinar sem skarta búningum formæðra sinna.

Í öðrum þorpum fóru skátarnir í skátamessu í sínum einkennisklæðnaði og gengu svo fylktu liði um bæinn undir taktföstum trommuslætti og fánaborg sama hvernig viðrar. Í öllum messum dagsins sungu kirkjukórar sem hafa þá skyldu að láta sönginn óma við allar okkar gleði- og sorgarstundir.

Húsið-Creative Space, Patreksfjörður, Patreksdagurinn, Vestfirðir, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Frá tónleikum á Patreksdaginn í Húsið-Creative Space, Patreksfirði. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Öllum góðum viðburðum líkur svo með góðri veislu, þar sem félagasamtök höfðu sent út boð á alla sína félagsmenn með ósk um bakkelsi sem síðan var skilað inn á tilsettum tíma. Í nútímasamfélagi þar sem allir vinna úti þýðir þetta að langt fram eftir kvöldi mátti sjá ljós í eldhúsgluggum út um allan bæ þar sem, enn sem komið var, konur voru á þönum að baka fyrir næsta viðburð.

Það er mikið og gott starf sem sjálfboðaliðar í fjölda félagasamtaka leggja á sig svo sem eins og sjómannadagurinn, áramótabrennur, skötuveislur, sviðaveislur, saltfiskveislur, sjávarréttakvöld, spilakvöld, bingo, markaðir og kótilettukvöld. Þegar þetta er allt upptalið þá eru það líka sjálfboðaliðar sem hlúa að okkur á ögurstund í björgunarsveitum, slysavarnardeildum og Rauðakrossinum.

Páskarnir eru einn af hápunktum skemmtanalífsins á Vestfjörðum. Öll þorpin norðanvert iða af lífi og viðburðum á hverju strái. Stærsti viðburðurinn, tónleikarnir “Aldrei fór ég suður” voru hápunktur menningarhátíðarinnar um páskana. Þar komu fram fjöldinn allur af hljómsveitum sem spiluðu mjög fjölbreyttar tónlistarstefnur. Á hátíðina mættu allir aldurshópar og í lokin stóðu tónleikagestir eftir með upplifun af tónlist og flutningi sem þá óraði ekki fyrir að væri til í bland við kunnuglega tóna og takta.

Villi Valli, Ísafjörður, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
Villi Valli spilar nokkur lög á blíðviðrisdegi á Ísafirði. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

“Aldrei fór ég suður” skapar umgjörð um alla aðra viðburði á svæðinu og trekkir að bæði tónlistarfólk og gesti sem sækjast í þessa einstöku upplifun. Það er líka allrar athygli vert að hátíðin er öll unnin í sjálfboðavinnu bæði tónlistarfólk og aðrir sem koma að tónleikahaldinu.

Um hvítasunnuhelgina flykkist fólk á sunnanverða Vestfirði til að upplifa heimildamyndahátíðina Skjaldborg þar sem áhorfendum er boðið að sjá allt það nýjasta í heimildamyndum og þær eru virkilega fjölbreyttar.

Að setjast í bíósalinn og háma í sig heimildarmyndir heila helgi gæti hljómað öfgafullt en þetta er virkilega eins og konfektkassi þú veist aldrei hvaða nálgun er á viðfangsefninu og hughrifin eru mögnuð. Hver og einn upplifir myndirnar á sinn hátt og óhætt að segja að enginn upplifir þær eins, það koma bæði góðir og slæmir molar allt eftir smekk.

Myndir um bóksala á Grænlandi, sigling yfir Atlantshafið á árabát, heimsmeistaramót í íshöggi, mynd um prjónaföt og saga íslenskra þjóðbúninga. Í heimildarmyndinni um þjóðbúningana kom til dæmis fram að frelsisstyttan og fjallkonan eru konur sprottnar upp af sama brunni. Sterkar táknmyndir kvenna síðustu aldirnar sem við byggjum kvenfrelsisbaráttuna á.

Skjaldborgarhátíð, Skjaldborgarbíó, Skjaldborg, Patreksfjörður, Vestfirðir, Julie Gasiglia, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Merki Skjaldborgarhátíðarinnar á skjánum í Skjaldborgarbíói. Hönnun Julie Gasiglia, ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þessar tvær sjálfboðaliðahátíðir Aldrei fór ég suður og Skjaldborg eiga það sameiginlegt að vera góður vettvangur fyrir nýja listamenn til að koma hugmyndum sínum og list á framfæri og þorpin njóta þess nýjast í menningunni með því að bjóða listafólkinu heim. Það er magnað að hugsa til þess hvernig stórir og smáir viðburðir verða til ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð og hvað allir eru samstíga í því að standa vel að þessum viðburðum svo allir fái notið þeirra.

Lífið í þorpunum er eins og hjartalínurit, miðjan er vinnan og daglega lífið en svo koma sveiflur upp og niður og það er í þessum sveiflum sem sjálfboðaliðar grípa boltann og gera lífið betra fyrir okkur öll.

Það verður seint metið hversu mikilvægt fólkið á bakvið tjöldin er og allt þetta góða starf sem er límið í samfélögunum og gerir okkur meðvituð um hversu mikilvægur þáttur við erum öll í “samfélagslíminu” með ólíka þekkingu og hæfni.

Sjómannadagurinn, Patreksfjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Það er líf og fjör á Sjómannadeginum á Patreksfirði. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundssonความคิดเห็น


bottom of page