top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ferðumst að list


Elfar Logi Hannesson, pistill, list á landsbyggð, ferðumst að list, landsbyggð, list, menning, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Það er jafnvel hægt að sækja listviðburði þar sem engin býr. Það er náttlega alveg einstakt.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Man einhver eftir átaksverkefninu Menningartengd ferðaþjónusta? Mikið sem þetta hljómaði vel í upphafi og gaf góð fyrirheit. Verkefnið byrjaði vel en einsog svo oft áður var hætt í miðju langhlaupinu sem öll svona verkefni eru. Það hefur líka að gjöra með þetta nýjabrum sem virðist því miður of oft fylgja menningu hér á landi, þá sérrílagi hvað verðlaunadóterí snertir. Þegar maður gúgglar Menningartengda ferðaþjónustu kemur einmitt efst í þeirri leit skýrsla frá 2001 um dæmið. Einnig nokk ofarlega ágæt ritgerð frá 2011 þar sem stúderuð var sérstaklega Menningartengda ferðaþjónustu, svo langt heiti svo hér eftir ritað M.f, á Vestfjörðum. Reyndar nokk einhæf þar sem þar komu aðeins setur og söfn við sögu.


Það var nú reyndar soldið dæmið með M.f. að þar var sagan, arfleiðin, í menningunni í aðalhlutverki. Nýjabrumið er ekki bara farið af M.f. heldur er það bara horfið sem slíkt. Hvað veldur? Kannski það að ramminn var jafnvel of þröngur sumsé að horfa og sýna mest hið liðna. Einnig nokk snúið að nefna þetta menningu þar sem menning er mjög víðtækt orð. Kannski alltof víðtækt því hvað er ekki menning? Matur, listir, saga, sport og svo miklu víðara. Hefði nú ekki verið slæmt ef M.f. hefði verið enn til staðar í dag á vorum kóvítans tímum og þá ekki síst á landsbyggðinni.


En verðum nú ekki einsog M.f. föst í fortíð eða einsog konan í risinu sem fannst allt betra í gamla daga. Kóvítans nei, horfum fremur fram á við enda má segja að nú sé nýtt upphaf. Ekki bara á landsbyggð heldur og um heim allan.

Sumarið er framundan og heyrst hefur að landinn ætli að ferðast um sitt eigið land. Það er frábær hugmynd. Víst er erfitt að keppa við náttúruna sem er senuþjófur í hverri sveit en það eru bónusar útum allt land. Dásamlegt fólk, magnaðar byggingar, sundlaugar og svo öll listin. Hvernig væri nú að ferðast að list í sumar? Þar sem listin væri í aðalhlutverki.
Elfar Logi Hannesson, pistill, list á landsbyggð, ferðumst að list, list, menning, landsbyggð, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
„Ætti kóvítið ekki að vera búið að kenna okkur það að fjölbreytileikinn er mikilvægur? Fyrir svo utan stundina og hvað þá staðinn. Og þetta eina sanna að njóta frekar en spana.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Það er nefnilega allt vaðandi í list um alla landsbyggð. Afrakstur M.f. er mjög víða að finna, öll setrin og söfnin. Allt frá skrímsla til byggða- og listasafna. Svo eru það allar myndlistarsýningarnar, tónleikarnir og leiksýningarnar sem eru í boði víða sumarið rúnt. Það er jafnvel hægt að sækja listviðburði þar sem engin býr. Það er náttlega alveg einstakt. Á landsbyggðinni er nefnilega að finna eitthvað einstakt og er það ekki einmitt þar sem tækifærin felast fyrir landsbyggðina? Það er miklu betra að vera einn af einum en einn af mörgum.

Að ferðast að list er mikil list og sérlega gefandi. Ekki bara fyrir þá sem njóta heldur og þeirra sem listina framkvæma. Víst hefur skóinn kreppt full mikið á kóvítans tímum hjá listafólki á landsbyggð einsog reyndar bara hjá öllum stéttum. En hvernig hlúum við best að uppbyggingunni í listinni? Jú, með þvi að mæta. Það er stærsti styrkurinn.

Það eru margar leiðir til að njóta lista um landsbyggðina í sumar. Gaman er að kynna sér listina á komandi áningarstað til að missa nú ekki af neinu eða óvart aka framhjá einhverjum einstökum listastað. En ef svo er má þó huxa, jæja þá er bara komin ástæða til að fara aftur. Enda er úrvalið í listinni á landsbyggð það mikið víða að ekki er hægt að upplifa allt í einu. Enda er ekkert varið í það. Kannski hefur kóvítið kennt okkur betur að njóta ekki of hratt. Meina, það er alveg óþarfi að fá alltaf alla kökuna í einu. Miklu betra að fá bara væna Eden kökusneið í einu. Þeir sem eigi muna þá sneið þá má geta þess að þessi sneið úr Eden Hveragerðis var allavega tvöföld núverandi kökusneið á kaffihúsum í dag. Enda fóru margir þangað bara til að fá sér þessa víðfrægu Eden kökusneið. Sem var einsog í garðinum fræga, ákaflega freistandi.

Elfar Logi Hannesson, pistill, list á landsbyggð, ferðumst að list, list, menning, landsbyggð, ferðalög, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Sumarið er framundan og heyrst hefur að landinn ætli að ferðast um sitt eigið land. Það er frábær hugmynd. Víst er erfitt að keppa við náttúruna sem er senuþjófur í hverri sveit en það eru bónusar útum allt land.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Nú er bara að láta list á landsbyggð freista sig í allt sumar og helst miklu lengur. Því hvur segir að landinn ætli bara að ferðast um sumarið eigum við ekki frekar bara að dreifa þessu árið rúnt. Enda er það nú svo að á veturna er víða enn meiri list á landsbyggð en á sumrinu. Hvort við þurfum endilega að vera að átaks gjöra verkefnið og nefna jafnvel Listatengda ferðaþjónustu, er alls ekki víst. Það yrði varla einsog blómstrið eina miklu frekar einsog M.f. mundi byrja vel en svo bara allt bú. Það er heldur ekkert vit í að vera tjalda til einnar nætur né hafa öll eggin í sama hreiðurskotinu.

Ætti kóvítið ekki að vera búið að kenna okkur það að fjölbreytileikinn er mikilvægur? Fyrir svo utan stundina og hvað þá staðinn. Og þetta eina sanna að njóta frekar en spana. Þannig mætti enda þetta á því að hafa það sem reglu á ferðlögum sumarsins að njóta allavega einnar lista á landsbyggð á dag.


Comments


bottom of page