top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hvernig er jökullinn í dag?

Updated: Apr 6, 2020

Náttúran laðar ferðamenn til Íslands. Hér er margt svo sérstakt og náttúruhamfarir eins og Eyjafjallajökulsgosið hafa bæði hrætt fólk frá því að koma til Íslands og hvatt aðra til að koma.

Það vekur óhug að heyra af jarðskjálftunum á Norðausturlandi en það er líka eitthvað spennandi við að fylgjast með náttúruhamförum. Íbúar í Skaftafellssýslum hafa fengið stóran skerf af náttúruhamförum og þar er náttúran sífellt í mótun.
Jöklaferð, Nick Dawes, Suðurland, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Gengið á jökulinn. Ljósmynd Nick Dawes

Í Skaftafellssýslum hefur á allra síðustu árum tekist að byggja upp margháttaða ferðaþjónustu allt árið. Þar er gisting í boði á mjög mörgum stöðum og veitingasala allt árið. En fólk kemur ekki til að gista og borða, það kemur til að skoða og gera eitthvað sérstakt og þar koma afþreyingarfyrirtækin inn: Gönguferðir, skoðunarferðir, norðurljósaskoðun, útsýnisflug, jöklaskoðun og fleira. Það er margt í boði og flest af því kaupa aðeins erlendir ferðamenn. Það er umhugsunarefni hvort við heimamenn ættum ekki að prófa það sem er á boðstólum?

Það sem einkennir ferðaþjónustuna í Skaftafellssýslum er jöklaskoðun þar sem eru snjósleðaferðir, ísklifur, gönguferðir á jökla og skoðunarferðir í íshella. Það hefur ekki verið einfalt að vinna á jöklunum því þeir breytast og stundum lokast leiðir. Og þannig er staðan í Öræfunum. Þar var vinsælasti jökullinn Svínafellsjökull. Suma daga gátu verið 400 manns á jöklinum í mörgum hópum.
Ingólfshöfði, Suðurland, ferðamennska, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Á leið á Ingólfshöfða. Ljósmynd LM

Íbúar í Öræfum höfðu veitt athygli sprungu í Svínafellsjökli og eftir að vísindamenn höfðu skoðað sprunguna var öll umferð bönnuð um jökulinn. Jöklaferðir færðust yfir á Skaftafellsjökul og þar gátu menn gengið í nokkra mánuði en síðan breyttust aðstæður þar líka og ekki var talið öruggt að fara um jökulinn. Falljökull og Breiðamerkjurjökull björguðu málunum en Skaftárjökull er nú aftur fær. Það verður að meta stöðuna á hverjum tíma. Marga daga þurfti að aflýsa ferðum vegna færðar eða veðurs og þá fara ferðamenn svekktir heim og starfsfólk verður bíða eftir betra veðri til að fara næstu ferð.


Leiðsögumenn hafa leitað að íshellum og boðið upp á skoðunarferðir í hellana. Það hefur verið mikil ásókn í þær ferðir. Nú þegar komið er fram í apríl þarf að fylgjast vel með öryggi í hellunum. Íshellatímabilinu er að ljúka þennan veturinn.

Vatnajökulsþjóðgarður hefur gefið út viðvörun þar sem varað er við hættunni en allir sem eru með ferðaþjónustu á Vatnajökli þurfa að fá atvinnuleyfi hjá þjóðgarðinum. Ferðaþjónustufyrirtækin verða að vera lausnamiðuð og finna nýjar leiðir og íshella þegar jöklarnir breytast. Þetta hefur tekist en þetta hefur ekki verið auðvelt.
Jöklaklifur, ferðamennska, Nick Dawes, Suðurland, úr vör, vefrit
Hópur í jöklaklifri. Ljósmynd Nick Dawes

Ferðir á jökul er einstök upplifun. Birtan, hljóðin í jöklinum, smæð mannsins í náttúrunni og náttúrufegurðin er engu lík. Ferðamenn sem fara slíkar ferðir koma margir til baka algjörlega orðlausir af hrifningu.

Eitt ævintýrið sem er boðið upp á í Öræfum er að fara á heyvagni út í Ingólfshöfða. Ferðaþjónustuaðilar hafa troðið braut, þannig að dráttarvélin festist ekki í sandbleytu, og á heyvagninum standa ferðamennirnir. Grunnt vatn liggur yfir og tilfinningin er sú að maður sé á leið yfir í aðra veröld.

Gengið er upp á Ingólfshöfða. Fuglalíf er mikið í höfðanum þar sem eru varpstöðvar lunda og skúmurinn sveimar yfir höfðum gesta. Skúmur er einkennisfugl Suðausturlands, stór og óvæginn. Hann á það til að renna sér niður og segja ferðamönnum að hundskast í burtu. Útsýnið úr Ingólfshöfða er stórkostlegt. Öræfajökull frá alveg nýju sjónarhorni, fjallgarðurinn allt austur í Hornafjörð og til vesturs sést Skeiðarársandurinn, Lómagnúpur og Síðufjöllin.

Ferðamennska, Suðurland, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Fugl á flugi með farþega. Ljósmynd LM

Ferðaþjónustan er eins og veðrið, það er ekki alveg hægt að reikna út hvað gerist. Og þannig er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Sólheimasandi algjörlega sjálfsprottinn. Það er flak flugvélar sem hrapaði þar 1971 og var aldrei fjarlægt. Alla daga ársins gengur fólk niður að flakinu. Enginn hefur nokkru sinni auglýst þennan áfangastað og það hefur enginn hag af því að fólk stoppi þarna. Markaðssetninguna sjá ferðamenn um sjálfir. Frægir tónlistarmenn og leikarar hafa tekið dansspor uppi á flugvélinni og virðist það hafa dugað til að fólk sækist eftir að skoða þennan stað. En kannski er það ekki bara flugvélin sem heillar heldur það að vera á gangi úti í víðáttunni og vissulega er umhverfið heillandi, svartur sandur, brimið og fjallasýn þar sem Mýrdalsjökull er eins og hvítt teppi á svörtum móbergsfjöllum og grænum heiðum.

Náttúran er endalaust undrunarefni og sennilega væri hægt að bjóða upp á margskonar leiðsögn og ferðir til að skoða skordýr, plöntur, fugla, fjöll eða bráðnun jökla. Það eru óendanlegir möguleikar. Hugmyndaflugið ræður en það þarf þrek og þolinmæði til að koma góðri hugmynd alla leið.
Ferðamennska, íshellir, Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Íshellaskoðun á Suðurlandi. Ljósmynd Vilhjálmur Hjörleifsson


bottom of page