top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Fasteignablús í innheimtudeildinni

Updated: Nov 1, 2019


Eiríkur Örn Norðdahl, fasteignablús, knattspyrnuhús, pistill, landsbyggðin, Aron Ingi Guðmundsson, úr vör, vefrit
Þú dregur andann, klárar seríosið og stingur skálinni í uppþvottavélina. Þolinmæði þrautir vinnur allar. Þetta veistu. Nema þær þrautir sem óþolinmæðin vinnur auðvitað. Festan sem sumir kalla „frekju“. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Þú vaknar einn daginn, nuddar stírurnar úr augunum. Köld haustbirtan flæðir milli gluggatjaldanna. Þú ert svo að teygja þig í farsímann á náttborðinu þegar þú áttar þig skyndilega á því að þú átt ekkert knattspyrnuhús. Allir aðrir eiga knattspyrnuhús en ekki þú. Þú átt sosum nokkra fótboltavelli og annað eins af íþróttahúsum. Og hvaða máli skiptir það líka þótt húsin standi ekki ofan á fótboltavöllunum? Þú átt bæði húsin og vellina. Þú átt þess utan slangur af sundlaugum og tvö skíðasvæði. En maður keppir víst ekki í knattspyrnu á skíðasvæðum, það er bara ekki gert. Til þess þarf knattspyrnuhús. Sem þú átt sem sagt ekki.

Þú dregur sængina upp að höku. Því þannig ertu ekki jafn nakinn.


Þú verður að hugsa þetta raunsætt. Ef þú færð ekki knattspyrnuhús er þetta búið. Það er einföld realpólitík. Það verður bara að horfa á stöðuna einsog hún er. Annað hvort verður knattspyrnuhús eða ekki knattspyrnuhús og ef það verður ekkert knattspyrnuhús er þessu sjálfhætt.


Allir aðrir eiga knattspyrnuhús! Ef þú eignast ekki knattspyrnuhús fara knattspyrnumennirnir bara eitthvað annað að leika sína knattspyrnu – kannski til Bolungarvíkur, ef þau fá knattspyrnuhús – og þú verður aldrei jafn góður í knattspyrnu og þig hefur alltaf dreymt um. Þú ferð aldrei á HM. Sennilega ekki einu sinni í KR.


Þú ferð á fætur, burstar tennurnar, hellir upp á kaffi og lítur yfir fjörðinn þinn sem er fullkominn fyrir utan allt sem vantar. Einsog til dæmis þetta knattspyrnuhús sem ásækir hugsanir þínar. Þú stingur skeiðinni í seríosið, skóflar því upp í þig og kveikir á útvarpsfréttunum. KR vann Pepsideildina, Víkingur vann Mjólkurbikarinn, Vestri er kominn upp í innheimtudeildina en hvað vannst þú? Þú vannst ekki neitt. Þú ert bara aumingi með hor og hálfa skál af seríosi, allt niðrum þig og ekkert knattspyrnuhús.


En jæja, ókei, Róm var ekki byggð á einum degi. Það kemur knattspyrnuhús. Auðvitað færðu knattspyrnuhús. Það fá allir knattspyrnuhús. Á endanum. Bara rólegur.

Nei andskotinn. Hér gefst bara ekki tími til þess að vera rólegur. „Það eru ekki til peningar fyrir knattspyrnuhúsi“, segja bara sívælandi aumingjar með enga framtíðarsýn. Annað hvort ertu á uppleið eða útleið – það er ekkert til sem heitir að hálfsigra, maður bara vinnur eða tapar, miðar á stjörnurnar eða gefst upp og kastar sér í ræsið.


„Mikill vill meira“, segja bara hreðjalausar kellingar sem aldrei hafa dregið andann af ótta við afleiðingarnar. Og hvað er eiginlega að því að vilja meira? Á maður að vilja minna? Maður drífur ekki langt í innheimtudeildinni á því viðhorfi. Þetta segir sig líka sjálft. Ef mikill vildi minna væri hann ekki mikill. Þá væri hann bara einhver lúser – tapari í hinni stóru félagslegu samkeppni um vini, vistmenn, vinnu og virðingu. Og knattspyrnu, auðvitað, myndi skíttapa öllum sínum knattspyrnuleikjum.


En hérna, ef mér leyfist að hugsa í lausnum, ef bærinn á ekki til pening fyrir þessu húsi hvers vegna stígur ekki laxeldið inn? Laxvangur – hvernig hljómar það? Eða bara Laxnes? Laxahöllin? Kvíar? Og ég meina til hvers í ósköpunum er maður að halda upp á einhver stórfyrirtæki ef þau byggja ekki fyrir mann knattspyrnuhús? Í alvöru.

Nei, þetta bara verður að gerast. Við megum ekki við því að hika. Við vitum öll að sá sem síðastur fær sitt knattspyrnuhús verður líka síðastur valinn í liðið og er þar með alltaf einu skrefi á eftir í þjálfun, leikmannakaupum, leiktækni, leikmætingu, leikaga, leikþreki, leikþoli og leikstyrk. Þú verður ekki síðastur, það kemur ekki til greina. Það er of seint að vera fyrstur en það er ekki of seint að vera framarlega.


Þú dregur andann, klárar seríosið og stingur skálinni í uppþvottavélina. Þolinmæði þrautir vinnur allar. Þetta veistu. Nema þær þrautir sem óþolinmæðin vinnur auðvitað. Festan sem sumir kalla „frekju“. Þegar hún vinnur verður sko stappfullt á leikjum. Þá verður setið upp í rjáfur meðan þú og þínir menn klárið bæði Mjólkurmálið og Pepsimálið. Í einum gúlsopa. Innheimtið allar skuldirnar í Inkasso. Bara búmm, bara bing.


Það segir sig líka sjálft að ef maður berðist alla daga með nægjusemina eina að vopni væru hér engir vegir, ekkert rafmagn, ekkert internet, og ekkert heitt vatn – alveg einsog hér er ekkert knattspyrnuhús. Það væri ekkert stjórnsýsluhús og engin höfn, engir snjóflóðavarnargarðar, enginn spítali og enginn flugvöllur og það væru allir fluttir nema þeir sem væru dauðir.


Þú reimar á þig skóna, tilbúinn til að takast á við heiminn, stígur út í daginn léttstígur og baráttuglaður. Það er sól í heiði og haustlitirnir æpandi í fjöllunum, en tóm í hjartanu þar sem knattspyrnuhúsið ætti að vera, og skyndilega rennur upp fyrir þér að það er ekki nóg með að þú eigir ekki knattspyrnuhús, þú átt ekki heldur neinn þjóðarleikvang.


Þú átt engan þjóðarleikvang!


Þú sem átt knattspyrnulið í heimsklassa. Þú sem varst á EM. Þú sem varst á HM. Engan þjóðarleikvang. Það eiga allar þjóðir þjóðarleikvang. En ekki þú.

Þú snýrð við í sporinu, tekur stefnuna beint aftur upp á loft, skríður undir sæng í öllum fötunum og segir þetta gott í dag. Á morgun verður nýr dagur. Ætlarðu rétt að vona.

Kommentare


bottom of page