top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Þrífur betur við hvert hrós


Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þorgrímur Einar Guðbjartsson, bóndi á Erpsstöðum. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum

Ímyndaðu þér þetta. Það er sumar og þú ert brunandi um í Búðardal á leiðinni vestur á firði. Það er heitur dagur á íslenskan mælikvarða, mælirinn sýnir 15 gráður. Gosið er búið og miðstöðin virkar ekki sem skildi. Þér er heitt, þú ert þyrst/þyrstur og bölvar í hljóði því engin búð er í augnsýn. Þú lítur út um gluggann um leið og þú opnar hann betur. Við blasir skilti: „Ís til sölu“. Þú snarhemlar. Er þig að dreyma. Nei, þú ert á Erpsstöðum í Búðardal. Þar býr Þorgrímur Einar Guðbjartsson, bóndinn sem tekinn var tali af blaðamanni ÚR VÖR á dögunum.


Þorgrímur vann áður ostagerð Mjólkursamsölunnar í Búðardal og ákvað í framhaldinu að flytja með konu sinni til Danmerkur og læra mjólkurfræði. Um það bil þegar hann var að klára nám sitt vorið 1997 keyptu þau hjón óvænt bæinn Erpsstaði.

Þorgrímur segir að það hafi ekki verið ætlunin að gerast bændur á þeim tíma en jörðin losnaði og slógu þau til. Hann fór fljótlega að búa til osta heima, u.þb. einu sinni til tvisvar á ári, bara að gamni fyrir fjölskylduna.

Það var svo í kringum árið 2005 að þau hjónin stækkuðu búskapinn og hófu að vera með það sem þá var kallað ferðamannfjós, þ.e. aðstöðu til að geta tekið á móti gestum og sýnt þeim búskapinn. Á sama tímapunkti ákváðum þau að setja einnig upp aðstöðu til framleiðslu á vörum til að selja ferðamönnum og var fljótlega ákveðið að byrja með ís.

Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þorgrímur lærði mjólkurfræði í Danmerku áður en hann keypti Erpsstaði á sínum tíma. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum

„Það eru ekki margir sem keyra útí eyðimörkinni framhjá skilti þar sem boðið er upp á ís. Við opnuðum hér í kringum 20. júní árið 2009 með íssölu og fengum fyrsta sumarið á milli fjögur og fimmþúsund gesti. Þetta var á sama tíma og þjóðvegurinn til Ísafjarðar var færður hingað yfir í gegnum dalina, þannig að það má segja að við vorum á réttum stað á réttum tíma.“ segir Þorgrímur.

Þorgrímur segir að árið 2012 hafi þau fengið gesti frá Bandaríkjunum til að læra að gera skyr. Viðkomandi höfðu verið að gera osta heima hjá sér og gerðu þau talsvert af ostum á meðan dvöl þeirra stóð á bænum. Það var upphafið í ostaframleiðslunni á Erpsstöðum samkvæmt Þorgrími. Hann segir að síðan þá hafi þau fengið erlenda ostagerðamenn á hverju ári, til lengri eða skemmri dvalar, til að spreyta sig til að búa til þá osta sem þeir vilja gera ásamt því að spreyta sig á vörum sem framleiddar eru á bænum.


Að sögn Þorgríms selja þau að mestu leyti heiman frá en hafa selt töluvert í verslunina Frú Laugu í Reykjavík. Hann segir að þau hafi prófað að fara í matvöruverslanir, bæði í Nóatún og Fjarðarkaup á sínum tíma en bætir við að vesen hafi verið í kringum þau viðskipti og því fljótlega tekin ákvörðun um að það væri einhver lykkja sem þau nenntu ekki að fara, líkt og hann orðar það.

Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, úr vör, vefrit
Ekkert stress hjá þessum félögum. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum

„Við erum með opið daglega í fjóra til fimm mánuði á ári og þar fyrir utan, yfir mesta veturinn, þá opnum við ef gesti ber að garði og ef fólk hefur samband við okkur fyrirfram. Ostagerðafólkið kemur í mars og gerir osta yfir sumarið og er jafnvel að gera osta í dag sem eiga að vera tilbúnir í maí eða júní á næsta ári.

„Svo fer þetta fólk eftir sumartraffíkina. Þá tekur við lágtíð yfir veturinn, en við gerum skyr í hverri viku til að halda því við og þar er alltaf eitt og eitt veitingahús sem kaupir það af okkur og einhverja osta líka.“ segir Þorgrímur.


Hann segir að það sé mikil ásókn í að koma og gera osta, og sá möguleiki sé orðinn töluvert þekktur. Þau taka inn nemendur frá Frakklandi og Svíþjóð, t.a.m. nema sem stundi nám í matartæknifræði en hafa aldrei komið nálægt því að búa til vörur fyrr en hjá þeim. Samkvæmt Þorgrími öðlast þau meiri víðsýni inn í umhverfið sem þau koma til með að starfa í framtíðinni, frekar en að læra um tæki sem búa til vörur og því er þetta tilvalið tækifæri að hans sögn.

Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, úr vör, vefrit
Ostagerð í fullum gangi. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum

Það er mikill gestagangur á bænum yfir sumartímann og milli sautján og átján þúsund gestir komu á síðasta ári.

„Við stílum inn á að þetta sé áningastaður. Fólk sem hefur tengsl vestur á firði það lítur t.d. á þetta sem stoppistöðina. Þau geta látið börnin hlaupa um, kíkt á dýrin og fengið sér ís til að seðja sykurþörfina. Eitt af markmiðunum er líka að opna þennan heim sem er lokaður, fólk hefur ekki aðgengi að sveitabæjum í dag.“ segir Þorgrímur.

Samkvæmt Þorgrími kemur fólk til hans til að ræða um ýmislegt tengt dýrahaldi og landbúnaðarmálum og segir hann það bara af hinu góða. „Fólk hefur þennan vettvang til að dásama eða úthrópa og maður getur þá svarað spurningum þeirra og farið í smá umræður. Ég man ekki eftir að slíkar umræður hafa leitt til handalögmála eða að einhver hafi rokið héðan í fússi, þær hafa yfirleitt endað á þokkalegum nótum.

Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, úr vör, vefrit
Yfir 17.000 gestir heimsækja Erpsstaði árlega. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum

„Og þannig á það að vera, menn verða að geta rætt þessi mál, hvort sem það er dýraverndunarmál, kjötát eða mjólkurát eða hvað það er, við erum ekki öll eins og það þarf að bera virðingu fyrir því.“ segir Þorgrímur.

Erpsstaðir fengu nýlega tilnefningu til Emblu verðlaunanna Rosalega stoltur af tilnefningu til Emblu matarverðlaunanna (Embla Food Awards) fyrir Íslands hönd. Á síðasta ári fengu þau svo Fjöreggið, viðurkenningu Matvæla- og næringarfræðifélags Íslands og Samtaka iðnaðarins. Þorgrímur segist afar stoltur af því og að það sé uppskera þess sem þau hafa sáð að undanförnu.

„En vandi fylgir vegsemd hverri, eins og segir í máltækinu og þetta verður þyngra og þyngra á bakinu á manni. Það er bara svoleiðis að maður verður mikið sjálfsgagnrýnni þegar maður fær hrós, þá fer maður út og þrífur betur!“ segir Þorgrímur að lokum og hlær.

Rjómabúið á Erpsstöðum, Erpsstaðir, Búðardalur, úr vör, vefrit
Grísir eru á Erpsstöðum yfir sumartímann og gæða sér á undanrennu, en mikið af henni fellur til við ísgerðina. Ljósmynd Rjómabúið á Erpsstöðum



Comments


bottom of page