top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Er list á landsbyggð?


Þó yfirleitt sé ekki mælt með því í orði eða samtali að hefja hvert tal eða skrif á spurningu þá ætla ég gerast svo djarfur að spyrja strax í upphafi þessa pistils. Enda ritari ekki vanur að feta leið sem þykir gáfuleg og segir það kannski allt um höfundinn. Í nærri tvo áratugi hefur ritari barist á móti hinum hefðbundna listastraumi með því að búa og starfa sem atvinnulistamaður á landsbyggð. Strax í upphafi fannst honum það alveg brjálaðislega sniðugt að taka sig upp með sitt eins manns atvinnuleikhús fara úr höfðuborginni og út á land.


Til að reka atvinnuleikhús á landsbyggð og til að gera dæmið enn meira heillandi (lesist styrk- og excelvænt) að fara þar sem skóinn hafði kreppt einna mest. Fara vestur s..s lengst út í... já bara útfyrir eitt hundrað póstnúmerið. Til að gera langa sögu stutta þá fannst Menningarmálaráðuneytinu og öðrum landssjóðum þessi hugmynd algjörlega fóta- og gangslaus. Segir það sitt um alvarlega stöðu Menningarráðuneytissins sem er fast í Ártúnsbrekkunni frægu þegar list á landsbyggð kemur við sögu. Þar ríkir einsog í sögunni vetur árið um kring til málaflokksins. Hinsvegar ríkir skilningur á list á landsbyggð í nærumhverfinu, hjá sveitarstjórnum og heimamönnum.

Gunnar frá Hofi, Gunnar Guðmundsson, Dýrafjörður, Grettir, list á landsbyggð, landsbyggðin, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Verk eftir Gunnar Guðmundsson frá Hofi í Dýrafirði.

En nú er ritari orðinn einsog dæmigerður listamaður talar bara um sjálfan sig. Í stað þess að svara spurningunni hér í upphafi. Sem er snöggsvarað. Jú, það er list á landsbyggð. Meira að segja alls konar list. Áhugaleikfélög eru enn starfandi þó eitthvað hafi þeim fækkað t.d. á Vestfjörðum þar sem nú eru aðeins tvö virk félög. Svo er það tónlistin sem er allskonar. Kórar, hljómsveitir, eins manns hljómsveitir og ég veit ekki hvað. Myndlistin er líka stunduð af krafti á landsbyggðinni. Danslist, ritlist og allskonar list þrýfst um landið allt. Eigi má svo gleyma list menntuninni. Frábærir tónlistarskólar og meira að segja sérstakir listaskólar sem kenna allt frá myndlist til ballet listar og allt þar í millum og kring. Ekki er allt upp talið því á landsbyggðinni er einnig að finna listasöfn og gallerý. Við allt þetta starfa svo bæði atvinnulistamenn og áhugafólk í listinni.


En, já enn eitt en, þetta stutta en mikilvæga orð í hverju máli. En er þetta bara ekki frábært öll þessi fjölskrúðuga list á landsbyggð. Er ekki bara allt í góðu og glimmeríi hér. Þarf nokkuð að bæta, er þetta ekki bara temmilega mikið svo blessað fólki hafi nú tíma til að vinna. Nei, skal ekkert fara í þessa átt. Það að list sé ekki vinna er á undanhaldi. Aðeins örfáir geirfuglar eftir í þeirri deild. En í alvöru þá er eitt og annað sem má gera í listum á landsbyggð til að efla þær og styrkja. Það er einmitt það sem vakir fyrir ritara með þessari spurningu í upphafi. Því skal nú leitast við að huxa upphátt og rita um list á landsbyggð í nokkrum pistlum hér á landslistavefnum urvor.is

Gunnar frá Hofi, Gunnar Guðmundsson, Dýrafjörður, list á landsbyggð, landsbyggðin, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Jú, það er list á landsbyggð. Meira að segja alls konar list. Verk eftir Gunnar Guðmundsson frá Hofi í Dýrafirði

Taka skal fram að huxari er þó bara öðru megin efnisins. Er starfandi atvinnulistamaður á landsbyggð en ekki í neinum nefndum eða stjórnum þeirra er úthluta monningum eða hafa með eiginlega listastefnu að gera. Sem meira er huxari kann ekkert á excel og náði aldrei algebru, féll þrivar í 100 áfanganum í stærfræði. Pælingar þessara pistla munu því vera svolítið lituð á öllu framantöldu. Kannski þvi líka að huxari sé markaður af skilnings- og áhugaleysis Menningarráðuneytis sérstaklega til atvinnulistar á landsbyggð. En þó vonandi án allrar biturar. Ekkert er verra í list en að vera bitur. Ekkert vinnst með því. En ritari bindur vonir við að þeir sem sitja hinu megin við listaborðið, fólk í opinberum ráðum, nefndum og stjórnum fylli inní þessa umræðu. Þannig verkast best í listinni ef hugmyndum og vangaveltum er kastað á milli. Verði einskonar borðtennisleikur tveggja ólíkra einstaklinga sem hitta loksins í mark með góðu smassi.


En það hefst ekkert nema maður hefjist handa einsog skáldið sagði? Víst er efnið margbrotið fjölbreytt og einsog óendanlegur bunki ógreiddra reikninga hjá gjaldkera. Monningakera er starfar hjá fyrirtæki sem finnst það stórsigur að vera bara á núllinu við hver áramót. Einmitt það tengir okkur við listina þar er núll rekstur mjög algengur. Einnig líka mínus rekstur. Nú erum við einmitt kominn útí djúpa enda listarinnar. Fjármálin. Söngur Pink Floyd, Money, á við ennþann dag í dag. En er lífið endalaust þannig „að maður verði að fá sér betri og betri vinnu til að eignast meiri peninga“. Eru peningar virkilega allt? Líka í listinni? „Eignast nýjan bíl og kavíar og kaupa sér svo eitt stykki fótboltalið.“ Annað skáld talaði alltaf um monninga og þá helst að eiga monnípeningaglás. Meðan annað stórskáldið svaraði því til að það að fá verðlaun væri einsog að fá „böns of monný“. Víst eru þessir monningar áhrifamiklir í voru lífi því er við hæfi að við hefjum umræðuna á list á landsbyggð á monníngum.


Dokið meðan ég huxa.


Texti: Elfar Logi Hannesson


Komentáře


bottom of page