top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Fimm barna fjölskyldu vantar á línubát

Updated: Nov 1, 2019


Dýrafjörður, fjallasýn, Eiríkur Örn Norðdahl, pistill, úr vör, vefrit, Haukur Sigurðsson
Það er aldrei hægt að dásama svona fjallasýn of oft. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

I

Þú stendur fyrir framan fjall. Þú snýrð þér í níutíu gráður og stendur fyrir framan annað fjall. Aftur snýrðu þér og nú stendurðu fyrir framan þriðja fjallið. Í fjórða sinn sem þú snýrð þér blasir hafið við. Handan þess fleiri fjöll. Allt er þetta mjög kunnuglegt.

Þú ert gæslumaður þessara fjalla og þau eru fangaverðir þínir. Hér er þér ætlað að búa og búsetan skilgreinir hver þú ert, hvað þú veist, hvað þú sérð og hvernig þú upplifir heiminn.

Það eru einungis tvær leiðir burt. Yfir hafið eða upp í loft.


II

Þegar þú ólst upp voru allir firðir fullir af peningum og skítnóg af vinnu í öllum þorpunum.

Meira að segja rónarnir unnu þegar þeir máttu vera að því. Skólastjórarnir fóru á skak þegar færi gafst og bankastjórar þurftu að vera kurteisir við sjómenn af því sjómennirnir voru á hærri launum.

Það var líka skítnóg af fólki í allar vinnurnar og fólkið mokaði matvælum upp úr hafinu – landaði, pæklaði, ísaði, fósaði, blóðgaði, slægði, pillaði, frysti, þíddi, pakkaði og skipaði út – og mettaði þannig hundrað þúsund munna og annað eins af mögum. Ekkert er jafn göfugt.

Þetta er stórveldisdraumur þinn, í framtíð, nútíð og fortíð og stundum er hann raunverulegur og stundum er hann draumórar. En í öllu þessu peningahafi og allri þessari vinnu var eiginlega aldrei neitt við að vera nema að slást á böllum – sem er svo sem ágætt, fyrir þá sem nenna því, en heldur dauflegt fyrir ykkur sem voruð betri í að láta berja ykkur en að berja aðra.


III

Dag einn hurfu svo þúsund manns. Tæplega fjórir tugir fóru í snjóflóðum en þú veist ekkert hvað varð um hina. Veröld hverfandi fer. So be it.

IV

Enn fæðist fólk á þeim spítölum sem eftir eru á svæðinu. Sumt fólk gerir sér að vísu lítið fyrir og fer með sjúkrafluginu suður – einsog þunguð ör í gegnum í „hjartað“ í Vatnsmýrinni – og fæðir svo á Landsspítalanum. Það kemur strax aftur heim.

Það deyr enginn í róðrum svo heitið geti lengur, þótt það deyi auðvitað enn allt of margir og margir alltof ungir.

Fólkið hérna, einsog víða annars staðar, deyr sjaldnar úr sjúkdómum þótt það vanti skurðlækna og fyrirfer sér síður þótt það vanti sálfræðinga. Kannski vantaði það ýmislegt annað áður sem vó líka þungt.


V

Fólkið vantar ekki hendur og fætur en stundum vantar það andlit og stundum vantar það rödd.

VI

Nú er nóg við að vera. Stundum hreinlega ofbýður þér; stundum væri ágætt að fá frið. Að þurfa ekki að missa af neinu. Nú er nóg af öllu nema útsvari, vegum, rafmagni, fjárfestingu og „vinnu við hæfi“. Og slagsmál eftir böll heyra sögunni til, sem er ágætt fyrir okkur sem kunnum ekki að slást en sennilega glatað fyrir hina.


VII

Reglulega færðu tilkynningu um varnarsigur. Það fækkaði um fáa, fjölgaði um fáa, við héldum í horfinu, meira hérna, minna þarna. Fólkið er næstum jafn margt og það var í fyrra. Fólkið er örlítið fleira en það var í fyrra.

Það kom skipulagsfræðingur, hún er gift lögreglumanni og þau eiga tvö börn; en við rétt misstum af tannlækninum sem var gift verkfræðingnum og þau áttu fimm börn. Grunnskólann munar um minna og báðir tannlæknarnir okkar eru að komast á aldur. Verkfræðingurinn var í vitlausum flokki og því fór sem fór, við þurfum að finna annan tannlækni. So be it.


VIII

Hver fór? Það var vinnustaður sem fór. Þetta veistu, það eru allir að tala um það. Þetta var sprotafyrirtæki sem hraktist suður með flutningskostnaðinum; fiskvinnsla sem hraktist suður með kvótanum; hátæknifyrirtæki sem hraktist suður með sérfræðingi. Þar glötuðust tólf. Svo kom annar vinnustaður og með honum komu sex og björguðust aðrir fjórir, sem hefðu annars farið. Dæturnar á Urðarvegi fóru í HR og synirnir á Sólgötu í HÍ. Tvö þeirra koma aftur og annað þeirra fær vinnu „við hæfi“. Hitt er hérna fyrir náttúruna og skíðasvæðið.


IX

Hver fór? Ertu með númerið hjá viðkomandi? Væri kannski ráð að hringja? Rjúfa þögnina? Athuga hvort hann, hán eða hún hafi áhuga á að snúa aftur – ef við breytumst, ef við hættum að valda vonbrigðum?

Virki það ekki gætum við reynt að reiðast – verða sár og saka viðkomandi um svik. Elí lama sabaktaní?

Ef það var nógu gott fyrir Krist hlýtur það að duga okkur. Eða hver á að halda þessu gangandi? Á ég að gera það? Ætlar þú í alvöru – í alvöru-alvöru – að búa í Reykjavík þar sem maður getur fengið flugvél í hausinn nánast hvenær sem er? Og svifryk? Það er bara ekki sjálfbært.


Komdu heim!


Texti: Eiríkur Örn Norðdahl


Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Sigurðsson, pistill, landsbyggðin, sjávarþorp, úr vör, vefrit
Rólegur dagur við Hafnarbakkann. Ljósmynd Haukur Sigurðsson

Comments


bottom of page