Dýrafjarðardagar, bæjarhátíð Þingeyrar í Dýrafirði, fór fram síðastliðnu helgi, dagana 5. til 7. júlí. Óhætt er að segja að þar hafi farið saman allt það sem gerir góða bæjarhátíð, metnaðarfull dagskrá, gleði og gott veður.
Dýrafjarðardagar hafa verið haldnir í svipaðri mynd og nú síðan árið 2001 og er hátíðin ávallt haldin fyrstu helgina í júlí. Hátíðin er fjölskylduhátíð þar sem safnast saman jafnt heimafólk sem brottfluttir Dýrfirðingar, nágrannar úr næstu bæjum og ferðamenn.
Helgin er oftast vel sótt svo öll gistirými eru nýtt og tjaldsvæði fyllast. Það var einnig raunin í ár enda veðurspáin góð og lék sól og blíða við hátíðargesti alla helgina.
Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og metnaðarfull sem endranær. Hefð hefur skapast fyrir því að bjóða gestum og gangandi uppá tónleika og útigrill á föstudagskvöldi hátíðarinnar. Er það hið svokallaða Bjarnarborgar gengi sem stendur að þeim gjörningi en tónleikarnir hafa fyrri ár verið haldnir í og við skemmu sem gengur undir sama nafni.
Í ár má segja að gengið góða hafi farið fram úr allra björtustu vonum er þau buðu hátíðargestum uppá sannkallaða tónlistarveislu undir yfirskriftinni „Ekkert vesen, bara gaman“. Á stóru útisviði mátti berja mátti augum fjölda tónlistaratriða með tónlistarfólki og sveitum á borð við GDRN, JóaPé og Króla, Dúndurfréttir, Jón Jónsson og Friðrik Dór, Huginn, Daða Frey o.m.fl.
Það ríkti ljúf útihátíðarstemning á föstudagskvöld, ekkert vesen, bara gaman. Föstudagstónleikarnir settu tóninn fyrir hátíðina en dagskrá helgarinnar var þeim enginn eftirbátur þar sem sækja mátti fjölda viðburða. Dagskráin var sambræðingur af hæfileikaríku listafólki úr heimabyggð sem og allsstaðar að af landinu og gátu allir, ungir sem aldnir, fundið sér eitthvað við sitt hæfi. Dýrafjarðardögum lauk með grillveislu og skemmtiatriðum á svæði sem kallað er víkingasvæðið og er heillandi samkomustaður með víkingayfirbragði.
Annar fastur liður Dýrafjarðardaga er Þriðja stigamót Íslandsmeistarakeppninnar í strandblaki sem undanfarin ár hefur verið haldið á Þingeyri á Dýrafjarðardögum. Er það Íþróttafélagið Höfrungur sem ber veg og vanda að skipulagi stigamóts þrjú, en Þingeyri skartar einum af bestu strandblaksvöllum á landinu og þykir vinsælt að fá að keppa á þeim velli.
Í ár var metþátttaka og þurfti að loka fyrir skráningar svo ekki komust allir að sem vildu. Keppt var laugardag og sunnudag frá morgni til kvölds í dúnmjúkum sandi og vonandi með sólarvörn því það var glampandi sól allan tímann. Keppnin fór vel fram í alla staði og voru líklega þreyttir en glaðir þátttakendur sem fóru heim á sunnudagskvöld.
Það er auðvelt að mæra slíka hátíð enda fátt sem skyggir á hana, margir komu að njóta og nutu vel. Þó ber að nefna að slíkar hátíðir á borð við þessa eru bornar á herðum einstaklinga sem gefa vinnu sína og tíma og liggja þar margir klukkutímar að baki. Í smáum byggðarlögum líkt og Þingeyri má finna vel fyrir smæðinni þegar ekki er til að dreyfa mörgum höndum til að vinna verkin. Því ber að þakka sérstaklega öllu því góða fólki sem lagði hart að sér í óeigingjörnu starfi sínu svo aðrir mættu njóta sem og styrktaraðilum sem lögðu fjármagn í hátíðina.
Texti: Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Commenti