top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Dynjandi


Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, Dynjandi, Vestfirðir, foss, landsbyggðin, náttúra, náttúrufegurð, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Í heimi þar sem valdabarátta og áskoranir virðast skyggja á framtíðarsýn okkar er gott að hafa í huga að hvert og eitt okkar hefur kyngimagnaðan kraft eins og Dynjandi.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Fossarnir í Dynjanda eru það náttúruvætti sem allir Vestfirðingar sameinast um og eru hvað stoltastir af. Þeir sem eldri eru eiga minningar um bíltúra þar sem fjölskyldunni var troðið í bílinn til að fara að fossinum og njóta. Vestfirðingar geta verið ósammála um margt en Dynjandi er okkar sameiningartákn, fossinn okkar allra og við eigum ótal minningar tengdar honum.


Yfir veturinn stendur Dynjandi vaktina í Arnarfirðinum sem fyrr, þrátt fyrir frostið og kuldann er fossinn jafnvel enn fallegri í klakaböndum og vatnið leikur niður klakann og klettana. Það er margt í heimsmyndinni í dag sem minnir okkur á klakabönd þar sem allar aðstæður eru einhvernvegin freðnar og erfiðari á tímum Covid og óvissu í heimsstjórnmálunum.

Samt sem áður heldur líf fólks áfram þó aðstæður hafi breyst. Dynjandi sýnir okkur að það er hægt að standa keikur þó á móti blási en það er vonin sem bræðir klakann í hugum okkar og glæðir fram vorið.

Þegar vorar lifnar allt við, fossinn verður vatnsmeiri og náttúran allt í kring fer að vakna. Það eru tækifæri á hverju strái, tækifæri fyrir lítil fræ að verða blóm eða tré, tækifæri fyrir fuglana að koma upp ungunum og kenna þeim að takast á við lífið. Í Vestfirska vorinu felst tækifæri til að efla unga fólkið svo það geti vaxið og dafnað og orðið stoltir og hæfileikaríkir einstaklingar sem við öll lítum til með sama stolti þegar þau arka af stað út í heiminn með veganestið sem umhverfið og samfélögin hafa gefið þeim.


Sumarið er tíminn og Dynjandi skartar sínu fegursta en nú getum við deilt því með öllum heiminum. Frá maíbyrjun og langt fram á haust er fólk við fossinn og það verður að segjast að aðstaðan er orðin mjög flott og einstaklega vel heppnuð. Náttúran nýtur sín, manngerð mannvirki sem eru gerð til að vernda náttúruna eru smekklega hönnuð og uppfylla þarfir gestanna til að komast að fossinum og njóta.


Það er svona sem við Vestfirðingar viljum gera hlutina, bjóða upp á góða aðstöðu til verndar náttúrunni en á sama tíma að njóta og draga í okkur kraftinn sem í henni býr.

Það er magnað að horfa á fossinn, hlusta á dyninn og láta hann hvetja okkur til að standa keik og hugsa stærra. Sjálfbærni er það sem rennur í gegnum hugann og hvernig við getum gert hlutina á sjálfbæran hátt þar sem allir njóta sín, náttúran og fólkið.

Finna fyrir stolti er þú stendur við fossinn þar sem fjöldi fólks allstaðar að úr heiminum er komið til að upplifa og verða fyrir hughrifum og hugsa með sér: „Gjörðu svo vel, þetta er fossinn minn, nei þetta er fossinn okkar allra, njótið með mér.“

Guðrún Anna Finnbogadóttir, pistill, Dynjandi, Vestfirðir, foss, landsbyggðin, náttúra, náttúrufegurð, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Yfir veturinn stendur Dynjandi vaktina í Arnarfirðinum sem fyrr, þrátt fyrir frostið og kuldann er fossinn jafnvel enn fallegri í klakaböndum.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Haustið kemur og Dynjandi, þessi sjarmerandi og glæsilegi foss, stendur enn vaktina, umkringdur berjalyngi og gróðri í haustlitunum. Í raun erfitt að gera upp við sig á hvaða árstíma fossinn er fallegastur þetta er meira spurning um hvað er í boði á hverjum árstíma. Svona er lífið, sífellt nýjar áskoranir sem við tökumst á við og þær eru fjölbreyttar og snúa að einkalífi okkar, samfélaginu og heimsmálunum. En allar þessar áskoranir gefa lífinu gildi og styrkja okkur og hvetja til að hugsa á skapandi hátt til að komu öllu í góðan farveg.

Dynjandi fyllir okkur krafti og er umvafinn dulúð. Það er erfitt að lýsa hvaða áhrif hann hefur og hughrifin eru misjöfn eins og við erum mörg. Við skulum ekki gleyma að Dynjandi er bara vatn sem rennur niður fjallshlíð, en það er hvernig það fellur sem gerir þessa töfra.

Hughrifin getum við heimfært á líf okkar allra, við erum bara fólk, en við höfum gríðarleg tækifæri til að hafa áhrif á það umhverfi sem við erum í, hafa áhrif á samborgarana og framlag hvers og eins er ómetanlegt og mikilvægt.

Í heimi þar sem valdabarátta og áskoranir virðast skyggja á framtíðarsýn okkar er gott að hafa í huga að hvert og eitt okkar hefur kyngimagnaðan kraft eins og Dynjandi.



bottom of page