top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Bjór er ekki bara bjór“

Updated: Mar 26, 2019


Friðrik Bjartur Magnússon, yfirbruggari Austra. Ljósmynd Austri Brugghús

Austri Brugghús var sett á fót á Egilsstöðum árið 2017. Síðan þá hafa 18 bjórar verið gefnir út og fleiri hugmyndir af bjórum litið dagsins ljós, en ekki farið í framleiðslu. Blaðamaður ÚR VÖR var forvitinn að vita meira um fyrirtækið og þá frjóu hugsuði sem að því koma. Slegið var á þráðinn austur til Egilstaða og Friðrik Bjartur Magnússyni, yfirbruggari hjá Austra Brugghúsi, var spurður spjörunum úr. „Hugmyndin að Austra Brugghúsi kviknaði

fyrir svolitlu síðan.


Það voru fimm kallar á svæðinu sem töluðu um að það vantaði brugghús á svæðinu og ákváðu að gera þetta að samfélagsverkefni. Það voru því haldnir fundir og boðnir út hlutir í þessu og við stofnun voru 45 hluthafar. Græjurnar komu svo til landsins í lok árs 2016 og brugghúsið svo gangsett í byrjun árs 2017.“

Að sögn Friðriks þarf að huga að mörgu þegar gangsetja á brugghús. Það þarf að hafa gott húsnæði, fá græjur sendar að utan, þróa uppskriftir og huga að markaðssetningu. Friðrik segir að það hafi skipt máli að vera fyrstir og hafa sitt heimasvæði. Í dag eru brugghúsin þó orðin tvö fyrir austan, en nú er þar líka brugghúsið Beljandi á Breiðdalsvík. Hann segir það einnig skipta máli að vera miðsvæðis á Austurlandi og með því fái þeir í gegn mikinn straum af ferðamönnum. „Fólk allstaðar að á Austurlandi hefur verið að koma í heimsóknir og í bruggtúra. Þegar við byrjuðum þá þekkti fólk eiginlega bara lager bjóra en við höfum tekið eftir að það hefur breyst. Núna hefur fólk þróað ýmsa bjórstíla með sér, jafnvel menn sem þekktu t.d. ekki áður Indian Pale Ale (IPA).“ segir Friðrik.

Austri Brugghús, bjór, Egilsstaðir, austurland, úr vör, vefrit
Nokkur eintök af bjórnum Steinketill á hvolfi. Ljósmynd: Austri Brugghús

Friðrik segir að af þeim 18 bjórum sem framleiddir hafi verið hjá Austra síðastliðin tvö ár hafi sjö tegundir verið seldar Á.T.V.R. sem hafa verið annað hvort fastir eða tímabundnir. Hann segir að það skipti miklu máli að bjórarnir þeirra hafi tengingu við svæðið. „Við nýtum hráefni hér úr nágrenninu og sem dæmi þá erum við núna með sérstaka bjóra sem eru með heita vatninu héðan. Hér er jarðvarmavatn og bjórar með því vatni skera sig frá þessum hefbundnu vatnsprófíls bjórum. Svo höfum við líka notað Wasabi í bjóra, með Wasabi sem er framleitt hér fyrir austan.

Bjórarnir okkar heita allir eftir fjöllum hér í nágrenninu þannig að við reynum að búa til okkar sérkenni og reynum að vera Austfirskir. Með því sköpum við okkur sérstöðu og það vekur yfirleitt athygli ef menn gera eitthvað öðruvísi.“ segir Friðrik.

Reglulega skapast umræða um að erfitt sé fyrir smá aðila í bjórgeiranum að komast inn á markaðinn vegna sterkrar stöðu stórra ráðandi aðila. Aðspurður segir Friðrik markaðinn vera svolítið strembinn. „Það er erfitt að vera lítill á svona markaði þar sem hár skattur er á öllu, eins og áfengisskatturinn. Svo er líka erfitt að komast inn til að selja í ríkið (Á.T.V.R.). Það er endalaust af nýjum bjórum að koma frá stóru aðilunum sem maður þarf að keppa við, sett eru mörg skilyrði sem þarf að uppfylla varðandi dreifingu og það tekur tíma að komast inn í það.“ Friðrik segir þó ekki vera mikla samkeppni á milli smá brugghúsa.

Austri Brugghús, bjór, Egilsstaðir, austurland, úr vör, vefrit
Nýju græjurnar komnar í hús. Ljósmynd: Austri Brugghús

„Það er betra að það séu mörg smá brugghús heldur en fá, fólk fylgist með hvað er í gangi hjá hvor öðrum og fólk fær áhuga á t.d. handverksbjór. Samvinna hjá brugghúsum á landinu er góð og erum við saman í samtökum sem gefa út kort með staðsetningu brugghúsanna. Við hjálpumst líka að varðandi að vekja athygli á hvort öðru.“

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Friðriks. Hann segir að það sé mest gefandi þegar það fást góð viðbrögð frá samfélaginu í kring og þegar fólk er ánægt með framtakið. Það hafa komið upp tilboð varðandi útflutning á bjórunum frá Austra en Friðrik segir að þeir séu ekki að horfa til þess strax. Í augnablikinu sé einblínt á markaðinn hér á landi, en bætir við að það sé aldrei að vita hvort einhver skref verða tekin varðandi að selja út fyrir landið á einhverjum tímapunkti. Friðrik segir að það sé margt spennandi framundan hjá fyrirtækinu. „Við erum að skipta um brugggræjurnar hjá okkur núna. Erum að fá 1000 lítra græjur en vorum áður með 350 lítra græjur. Það verður hægt að framleiða meira yfir sumarið með stærri græjum og við vonumst til að þetta verði komið upp í lok mars.“

Austri Brugghús, bjór, Egilsstaðir, austurland, úr vör, vefrit
Búið að tappa á flöskur og tilbúið í sölu. Ljósmynd: Austri Brugghús

Sumir vilja meina að bjór sé bara bjór og skilja ekki alveg að framleiddar séu allar þessar tegundir ár hvert. Friðrik hlær þegar þetta er borið undir hann og segir að bjór sé alls ekki bara bjór. „Það er himinn og haf þarna á milli og margt nýtt og spennandi hægt að gera og maður verður reglulega að leggja höfuðið í bleyti til að reyna að finna upp eitthvað sem virkar. Hluthafar og stjórn fyrirtækisins hittast og smakka bjóra regulega og athuga hvort þeir séu nógu góðir til að fara á markaðinn.

Það hafa verið prófaðar hugmyndir hjá okkur sem virkuðu ekki og sem enduðu í ræsinu. Þegar maður er með svona smá brugghús þá verður maður að vera djarfur og prufa sig áfram en maður getur ekki alltaf hitt í mark.“ segir Friðrik að lokum.


Comments


bottom of page