Arna ehf. er mjólkurvinnsla í Bolungarvík sem sérhæfir sig í framleiðslu á laktósafríum mjólkurvörum, þ.e. án mjólkursykurs. Vörur Örnu ehf. eru framleiddar úr próteinbættri íslenskri kúamjólk og henta öllum sem neyta ferskra mjólkurafurða og sérstaklega vel þeim sem hafa mjólkursykursóþol eða kjósa mataræði án laktósa.
Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóra Örnu ehf. og forvitnaðist um sögu fyrirtækisins og hvernig framleiðslan gengi. Hálfdán, sem er menntaður mjólkurtæknifræðingur segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað árið 2012.
„Maður tók eftir að það væri mjólkuróþol í fjölskyldunni, líkt og í flestum fjölskyldum og við fórum að skoða hvað væri að gerast í þessum málum í kringum okkur, þ.e. varðandi framleiðslu á laktósafríum vörum. Við sáum að framleiðsla á þessum vörum væri að aukast mikið, þannig að við þróuðum þessa hugmynd að framleiða laktósfríar mjólkurvörur og hófum starfsemi í september árið 2013.“ segir Hálfdán.
Mikil aukning hefur verið varðandi framleiðsluna hjá Örnu og um allan heim. Mjólkuróþol er algengt óþol, og hefur það skilað sér í vexti fyrirtækisins. Í upphafi unnu fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu en í dag eru þeir 28 talsins og selur fyrirtækið vörur um allt land. „Það hefur verið mikill og hraður vöxtur hjá okkur sem hefur lika verið áskorun, því það er erfitt að vaxa svona hratt.
„Við erum í stóru húsnæði í Bolungarvík sem er þannig að við höfum haft tækifæri til að stækka innan þess. Þetta er 5.000 fermetra húsnæði og erum við núna að nota 3.500 fermetra. Það hefur hjálpað til að þurfa ekki að skipta um húsnæði, svo höfum við fjárfest í tækjum og tólum til að framleiða þessar fjölbreyttu mjólkurafurðir.“ segir Hálfdán.
Að sögn Hálfdáns er lykilatriði að vera með góða vöru og segir hann að þeim hafi tekist það. Fyrirtækið er með 44 vörur í framleiðslu fyrir utan þann ís sem seldur er á Örnu ís- og kaffibar á Eiðistorgi í Reykjavík. Það eru á milli 20 og 30 ístegundir í boði samkvæmt Hálfdáni og er það laktósafrítt kaffihús og er því óhætt að segja að fyrirtækið stíli inn á þennan markað. Hálfdán segir að það hafi verið hasar og læti á mjólkurmarkaðnum af og til í gegnum tíðina, sérstaklega varðandi mál sem tengjast Mjólkursamsölunni (MS). Hann segir að MS hafi þrengt að nýjum aðilum á markaðnum, en að hann hafi ákveðið persónulega að hugsa ekkert út í það heldur einbeitt sér í stað að því að byggja upp fyrirtækið.
„Ég held að hugsanahátturinn hjá MS sé breyttur, þeir huga meira að samkeppnismál í dag, væntanlega í kjölfar dóma sem hafa fallið. Við erum bara litli aðilinn á þessum markaði og við einblínum á að hafa fjölbreytt úrval af góðum vörum.
„Það eru miklu fleiri sem kaupa vörurnar heldur en þeir sem hafa mjólkuróþol. Sumir átta sig ekki á því að þeir eru með óþol, einkennin geta verið væg eins og uppþemba og bólginn magi og svo getur þetta farið út í að vera mjög slæmt.“ segir Hálfdán.
Hálfdán segir að það séu kostir við laktósafríar vörur. Hann segir að í framleiðslunni séu laktósarnir ekki fjarlægðir heldur eru þeir klofnir og myndast þá glúkosar og galóktasar. Vegna þessa er mögulegt að framleiða mjólkurvörur með mun minni viðbættum sykri, því sætan fæst úr mjólkinni og svo er kolvetnainnihaldið einnig lægra sem samkvæmt Hálfdáni sé eitthvað sem fólk horfi í.
„Fólk áttar sig oft ekki á óþolinu fyrr en það hefur horft í mataræðið, skoðað það, breytt einhverju og líður svo betur á eftir. Svo má benda á að þegar við eldumst þá minnkar virknin á ensímum í meltingarveginum og þá eru laktósafríar vörur betri varðandi meltinguna.“ segir Hálfdán.
Hálfdán er frá Ísafirði og segir meira í gríni en alvöru það vera skrýtna tilfinningu að vera með fyrirtækið staðsett í Bolungarvík. Öll framleiðslan er í Bolungarvík og eru engar áætlanir um að fara eitthvað annað að hans sögn. Samkvæmt Hálfdáni þá sé staðan góð eftir að göngin komu á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og segir hann að það sé lítið mál að skjótast á milli og bætir við að samgöngur eru góðar almennt séð. Segir Hálfdán að það hafi fallið niður ein eða mesta lagi tvær ferðir á þessum sex árum síðan að fyrirtækið hóf starfsemi, sem er nokkuð gott að hans sögn.
Hálfdán segir að í upphafi, þegar fyrirtækið hafi verið stofnað, var farin sú leið að finna hluthafa og hlutafé safnað og hafi það gengið vel. „Það var mjög mikilvægt því fyrstu árin voru hrikalega erfið hjá okkur, eins og hjá öllum nýsköpunarfyrirtækjum oftast nær.
„Það er jákvætt fyrir fólk á svæðinu og eykur bjartsýni ef fólk sér að hægt sé að stofna fyrirtæki á landsbyggðinni sem gengur vel, það gefur fólki kjark að gera eitthvað úti á landi. Það voru ekki margir sem höfðu trú á því að mjólkurvinnsla í Bolungarvík gæti gengið, en þetta hefur verið núna í sex ár og þar af skilað hagnaði í þrjú ár.“ segir Hálfdán.
Hálfdán segir að fyrirtækið sé nokkuð stór vinnustaður á svæðinu, ef litið er til þess að þar starfi 28 manns í 1000 manna samfélagi og segir hann muna um minna. Hann er bjartsýnn á framtíðina og hefur trú á þeim vörum sem fyrirtækið framleiðir. „Við erum að keppa á mjólkurmarkaði og erum litlir aðilar þar, erum með 4% af markaðnum.
„Markmiðið er að stækka frekar, ég leit á þetta sem 10 ára verkefni í upphafi og þetta snýst að miklu leyti um að hafa tæki og tól til að framleiða góða vöru. Það er dýrt og við notum allt sem við eigum til að byggja okkur upp tæknilega séð og varðandi vöruþróun. Við munum halda okkar striki, mottóið okkar er 100% áfram!“ segir Hálfdán að lokum og auðvelt er að skynja eldmóðinn í rödd hans.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Commentaires