Veröldin sem var.
Endur fyrir löngu var afskekkt og harðbýl eyja í útjaðri danska konungsveldisins. Til lengri tíma litið breyttist samfélagið afar hægt en skammtímasveiflur frá einu ári til annars voru hins vegar óstýrilátar og oft banvænar fyrir stóran hluta íbúanna. Samgöngukerfið byggðist að mestu á því að vera kunnugur staðháttum og þrátt fyrir urð og grjót til vegagerðar drukknaði fólk kynslóð fram af kynslóð í sömu óbrúuðu ánum og varð úti á sömu veglausu heiðunum.
Auðlindirnar voru lengst af nýttar samkvæmt gömlum hefðum forfeðranna og meðan hungrið svarf að köldum og blautum landsmönnum sóttu sjómenn annarra landa ríkuleg fiskimið við Íslandsstrendur. Nýjasta tækni og vísindi fóru að mestu hjá garði á sama hátt og nýir straumar og stefnur í menningu og listum, stjórnmálum, búsetu og framleiðsluháttum.
Um miðja nítjándu öld réðust dönsk stjórnvöld í umfangsmiklar aðgerðir sem styrkja áttu brothættu jaðarbyggðina á Íslandi og skila fjölbreyttara samfélagi, öflugra efnahagslífi og umfram allt minna veseni fyrir embættismennina í Kaupmannahöfn.
Í seilingarmiðstöð frá stjórnsýslumiðstöð sinni á Bessastöðum stofnuðu dönsk stjórnvöld til lítils þorps með því að fjármagna lítið iðnfyrirtæki með þátttöku heimamanna, með svipuðum hætti og Byggðastofnun löngu síðar. Löngu áður en Byggðastofnun, Landmælingar og höfuðstöðvar Fiskistofu voru flutt hreppaflutningum lögðu dönsk stjórnvöld grunninn að Reykjavík nútímans með flutningi opinberra starfa og nýjum stofnunum til litla innréttingaþorpsins.
Þessar byggðaaðgerðir báru þann prýðilega ávöxt að undir lok 18. aldar voru íbúar Reykjavíkurþorpsins rúmlega þrjú hundruð talsins eða álíka og íbúar Hólmavíkur árið 2019.
Þegar líða tók á 19. öldina varð þessi danska byggðastefna ein meginstoð sjálfstæðisbaráttunnar þótt helstu hetjur hennar hafi fæstar gengið svo langt að flytja frá Kaupmannahöfn heim í litla þorpið. Þannig lýsti Jón Sigurðsson því til dæmis yfir að uppbygging Reykjavíkur sem miðstöðvar stjórnar, lærdóms menntunar og handiðna væri forsenda þess að Ísland gæti komist á nokkurn velgengnis fót og notið þjóðarréttinda.
Eftir því sem leið á 19. öldina óx Reykjavík og dafnaði, Alþingi var þar endurreist, opinber starfsemi efldist og stofnað var til margvíslegra fyrirtækja, jafnframt því sem landssjóður réðist í miklar samgönguframkvæmdir til að skapa bænum fullnægjandi bakland. Undir lok 19. aldar bjuggu rúmlega fjögur þúsund manns í Reykjavíkurbænum eða nágrenni hans eða svipað íbúafjölda Vestmannaeyja árið 2019.
Borgríki og landsbyggðir.
Vöxtur Reykjavíkurþéttbýlisins á 20. öld var ævintýri líkastur og undir lok aldarinnar bjuggu þar tveir af hverjum þremur landsmönnum. Að jafnaði hefur fólki einnig fjölgað mikið utan borgarinnar en slík meðaltöl fela afar ólíka þróun einstakra landshluta.
Aldamótaárið 1900 voru Vestfirðingar til dæmis ívið fleiri en íbúar Norðurlands eystra en hundrað árum síðar hafði íbúum fyrir vestan fækkað um þriðjung en íbúafjöldinn tvöfaldast fyrir norðan.
Hvað sem líður erfiðum og brýnum úrlausnarefnum á einstökum svæðum hafa lífsskilyrði landsbyggðanna á flestum sviðum þó aldrei verið betri, hvort sem litið er til samgangna, menntunarstigs, fjölbreytni starfa, verslunar og þjónustu, eða menningarstarfs og afþreyingar. Þá hefur tæknibyltingin skapað stórkostlega möguleika í samskiptum fólks og aðgangi að upplýsingum, menntun, atvinnu og afþreyingu sem hefði verið óhugsandi fyrir örfáum árum.
Það er hafið yfir allan vafa að landsbyggðirnar eiga litlu öflugu borginni við sundin margt að þakka. Án þorpsins sem varð að bæ og bæjarins sem varð að borg hefði þróun landsins orðið með allt öðrum og líklega mun verri hætti. Með sama hætti er enginn vafi á því að borgin var að verulegu leyti byggð upp með tilstyrk annarra landsvæða sem urðu bakland hennar og lögðu henni til mannafla og fjármagn til uppbyggingar. Það á ekki síst við um fjarlægustu svæðin sem nutu síst þeirrar þjónustu sem veitt var í borginni, misstu frá sér flesta íbúana og lögðu mest til þjóðarbúsins á hvern íbúa.
Þessi saga samlífs borgar og landsbyggða breytir því ekki að Reykjavíkurþéttbýlið hefur fyrir löngu vaxið landinu yfir höfuð.
Það er útilokað fyrir nokkra borg að byggja tilvist sína á því að vera miðstöð þjónustu fyrir bakland sem aðeins er helmingurinn af stærð borgarinnar sjálfrar. Hugmyndin um borgríkið Ísland sem hefur heiminn allan að baklandi í fjölbreyttum samskiptum við aðrar borgir lýsir því ekki endilega hroka borgarbarnsins sem hefur gleymt sögu og ábyrgð höfuðborgarinnar. Hún endurspeglar að verulegu leyti tilvistarkreppu smáborgar sem skortir nógu stórt þjónustusvæði til áframhaldandi vaxtar og velgengni.
Veröldin sem verður.
Íslenskt þjóðfélag er skipulagt samkvæmt þeirri hugmyndafræði nítjándu aldarinnar að fimmtíu þúsund manna þjóð í stóru landi geti í besta falli byggt nútímasamfélag á einum stað. Þær forsendur hafa rækilega brostið með mikilli fólksfjölgun, hækkandi menntunarstigi, bættum samgöngum og tæknibyltingu í samskiptum og upplýsingum. Íbúar landsbyggðanna eru nú í stakk búnir til að taka að sér verkefni sem hefðu verið óhugsandi fyrir nokkrum áratugum, hvað þá við upphaf þéttbýlisvæðingar á Íslandi á 18. öld.
Vissulega er sífellt auðveldara að þjappa allri verslun, þjónustu og opinberri starfsemi á einum stað og sinna öðrum landsvæðum úr fjarlægð, en með sama hætti hafa skapast glænýir möguleikar á því að dreifa slíkri starfsemi um allt land og raunar tengja stór og smá byggðarlög milliliðalaust hvort við annað og við heiminn allan, án þess að fara í gegnum landsmiðstöð borgarinnar.
Framundan eru þó enn meiri breytingar sem eflaust munu kollvarpa viðteknum hugmyndum um byggðastefnu, landsskipulag og jafnvel þjóðríkið sjálft. Þótt flestir þurfi enn að mæta reglulega á tiltekinn vinnustað er sífellt auðveldara að vinna heima, á uppáhaldsstöðum eða á ferð og flugi. Þeir sem geta mætt í vinnuna annað slagið hafa mun meira val um búsetu og kann það að vera ein orsök þess að byggðarlög í seilingarfjarlægð frá Reykjavík á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi vaxa nú mun hraðar en borgarsamfélagið sjálft.
Á næstu áratugum mun störfum óháðum búsetu eflaust fjölga til mikilla muna. Því til viðbótar er framtíð vinnunnar sjálfrar ekki fyllilega ljós. Mörg störf munu verða tæknivæðingu að bráð á næstu árum og áratugum og til lengri tíma litið gæti það líklega átt við um flest störf.
Við teljum í okkur kjark með þeirri möntru að alltaf muni skapast ný störf í stað þeirra sem glatast en réttmæti þess á eftir að koma í ljós.
Ef sífellt fleiri störf verða óháð staðsetningu, vægi vinnunnar minnkar og hverfur jafnvel að mestu eða öllu leyti úr lífi þorra fólks vaknar óhjákvæmilega sú áhugaverð spurning hvar fólk muni kjósa að búa ef vinnan ræður ekki lengur búsetu. Sumir myndu eflaust kjósa sér búsetu í mestu mannmergðinni, aðrir í miðlungs þéttbýli en enn aðrir í minni þorpum og strjálbýli.
Framtíðarhorfur einstakra byggðarlaga kunna þannig í síauknum mæli að ráðast af þáttum á borð við náttúrufegurð, byggingarstíl, þjónustu við börn og gamalmenni, menningar- og tómstundastarfi og umfram allt skemmtilegu mannlífi?
Texti: Þóroddur Bjarnason
Comments