top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Að sjá fegurðina


Skúli Gautason, pistill, stóísk ró, að sjá fegurðina, hugarfar, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Lífið er fullt af fallegum og hrífandi hlutum en við þurfum að hafa hugarró til að gefa þeim gaum.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Einn af forn-grísku heimspekingunum var Epiktet. Magnaður hugsuður. Hann var Stóuspekingur, en hugtakið að vera í stóískri ró er dregið þaðan. Heimspeki hans gekk út á að maður ætti ekki að óska sér að hlutirnir væru öðruvísi en þeir eru, heldur ætti það að vera vilji manns að allt gerist eins og það gerist. Þannig öðlist maður hamingju.


Ég skal ekki segja hvort þetta er alveg æskileg lífsstefna á öllum sviðum, mér finnst nú að ákveðinn metnaður til að hrinda breytingum í framkvæmd sé jákvæður. Að eiga sér draumsýn og starfa markvisst að því að láta drauminn rætast.

Epiktet kenndi að þegar allt kæmi til alls væri það eina sem maður hefur í raun stjórn á sé valdið til að ákveða hvort maður sé sáttur og hamingjusamur. Allt annað er undir öðrum komið.

Mér verður stundum hugsað til þessa þegar ég tala við fólk sem er að pirra sig á hinu og þessu, iðulega hlutum sem það getur engu um ráðið. Til dæmis finnst mér afar sorglegt þegar fólk pirrar sig á veðrinu. Það er nokkuð sem við fáum seint breytt. Við getum vissulega klætt okkur eftir veðri. Það reyndar getur falist ákveðin sigurtilfinning í því að fara vel búinn út í slæmt veður. Við höfum líka mörg hver möguleika á að ferðast eða flytjast til annarra staða þar sem veður eru blíðari. En það að láta veðrið hafa áhrif á skapferli okkar er nokkuð sem við þurfum bara að eiga við okkur sjálf.

Skúli Gautason, pistill, stóísk ró, að sjá fegurðina, hugarfar, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Ekki það að mér sé skítsama um allt, heldur að það sé best að láta hlutina ekki ergja mig.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Ég tók sjálfan mig á eintal þegar ég varð fimmtugur. Var að keyra eitthvert, stoppaði bílinn úti í vegkanti og ræddi upphátt við sjálfan mig. Það var hollt og gott. Mæli með því. Umræðuefnið var hvernig kall ég ætlaði að verða; þessi bitri og öfugsnúni sem léti allt ergja sig eða þessi umburðarlyndi sem reyndi að sjá fegurðina í öllum hlutum. Ég komst að þeirri niðurstöðu að síðari kosturinn væri heilladrýgri.

Lífið er samt ekkert einfalt. Það er enginn dans á rósum og stundum koma upp mál sem eru erfið. Ég hef iðulega þurft að minna mig á þetta eintal mitt við sjálfan mig þegar ég móta afstöðu mína í málum. Ekki það að mér sé skítsama um allt, heldur að það sé best að láta hlutina ekki ergja mig.

Þegar ég var strákur voru gefin út myndablöð sem hétu Sígildar sögur Iðunnar. Ég gleypti þau í mig. Í blaðinu um Davy Crockett mótaði hann sína lífssýn svona: „Be always sure you're right–Then go ahead.“ Þetta mætti útleggjast: Vertu viss í þinni sök – haltu síðan áfram. Þetta má gjarnan hugsa í samhengi við hina víðfrægu bæn sem hljóðar svo: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég get ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Páll Stefánsson er einn besti ljósmyndari þjóðarinnar. Við vorum bekkjarbræður í gamla daga. Ég spurði hann einhverju sinni hvernig hann fyndi mótíf eða myndefni. Hann svaraði því að myndefnið væri alls staðar, maður þyrfti bara að opna augun til að sjá það. Ég held að þetta sé býsna gott nesti að hafa með sér í gegnum lífið. Lífið er fullt af fallegum og hrífandi hlutum en við þurfum að hafa hugarró til að gefa þeim gaum.


Texti: Skúli Gautason


Comentarios


bottom of page