top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Á brókinni við eldhúsbekkinn


Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, orðaval, íslenska, málnotkun, málvenja, tungumál, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Í minni heimasveit er gefið á garðann, þar eru kindurnar í kró og svo eru lambærarnar krubbaðar/króaðar af með lömbin sín nýborin.“ Ljósmynd Aron Ingi Gumundsson

Á eyjunni okkar Íslandi er eitt tungumál en margbreytilegt og fallegt. Víkingarnir og landnámsmenn sem sigldu yfir hafið frá hinum norðurlöndunum virðast þó eitthvað hafa ruglast í einangruninni því eins og allir vita sem læra dönsku þá sofa þeir á sænginni, inní rúminu. Við sofum með sængina yfir okkur ofaná rúminu, inní herberginu. Svíar fara í róleg partý og horfa á rólegustu sjónvarpsrásina, alveg ruglaðir.


En svona geta sömu orðin fengið breyttar eða þveröfugar merkingar. Það fallega við tungumál er að þau geta verið margbreytileg þar sem menning, hefðir og náttúru hafa áhrif á orðanotkun. Vinnufélagar mínir hváðu við eitt sinn er samstarfskona ein, sjómannsdóttir, sagði að það væri „allt í skrúfunni“. Fyrir mér var þetta eðlilegt, ef bátur fær í skrúfuna þá stoppar allt og er bölvað bras, en ekki orðaval sem er öllum tamt. Svo er það nú eitt, bölvið. Þegar ég sem ung dama fór að heiman í framhaldsskóla og var í verklegum tíma, hvar orðasamskipti flæða örar en í bóklegum tímum, þá segir kennari einn við mig „hví bölvarðu svona stelpa“. Tja… bóndadóttirin var bara vön að það væri töluð svolítið kjarnyrt íslenska og karl faðir minn nær stundum að tvinna saman allt að fimm blótsyrðum áreynslulaust ef allt gengur á afturfótunum. En ég komst fljótt að því að þetta var ekki vaninn alls staðar.

Það er svo skemmtilegt hvað sum orð geta verið landshluta bundin. Flestir þekkja það að Akureyringar drekka kók úr bauk og svo punkterar. En norðlendingar ganga líka um á brókinni en ekki nærbuxunum… ja allavega flestir sem ég þekki. Eða sko, kannski ganga ekki um á brókinni alla jafna en þið skiljið hvað ég er að fara. Og jafnvel á síðbrókinni, enda fátt betra en góð síðbrók á okkar kalda landi.

Um daginn lenti vinkona mín í því að segja að hún hefði bara keypt nokkur hæti, og viðmælandinn hváði. Kannski það sé líka norðlenska. Að eiga ekki hætishót skilja kannski fleiri, en hæti mun var eitthvað afar lítið. Það er svekkjandi að borga háar upphæðir í matvörubúðinni þegar þú ert bara með nokkur hæti í pokanum. Og nú má ekki einu sinni fá aumingja í búðinni lengur. Hmmmm… aumingja já, svona litla glæra poka, það skilja það allir er það ekki.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, orðaval, tungumál, málvenja, málnotkun, íslenska, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson
„Það fallega við tungumál er að þau geta verið margbreytileg þar sem menning, hefðir og náttúru hafa áhrif á orðanotkun.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Í minni heimasveit er gefið á garðann, þar eru kindurnar í kró og svo eru lambærarnar krubbaðar/króaðar af með lömbin sín nýborin. Í krubbu. Aðrir bændur gefa í jötu og hafa kindurnar í garðanum, og fara svo í að spila af lambærnar. Þegar ég heyrði það fyrst hváði ég, var verið að fara að spila í fjárhúsunum? Og fleiri sveita orðfæri hef ég heyrt hvað þetta varðar.


En af öllu sem ég hef heyrt þá er eldhúsbekkurinn bestur. Mér er bara óskiljanlegt hvaða annað orð ætti að nota og hafði bara ekki hvarflað að mér fyrr en minnst var á þetta fyrir nokkrum árum síðan að eldhúsbekkur væri ekki allra orðaval. Fjölskyldan borðar við eldhúsborðið, þetta með fjórum fótum og stólum við, og setur svo diskana á eldhúsbekkinn, svona ef þeir ná ekki alla leið í vaskann eða í uppþvottavélina. Því amma á Akureyri setti hlutina stundum í vaskann. Hún átti reyndar líka alltaf bolsíur (brjóstsykur) í krukku og þurrkaði af eldhúsbekknum með bekkjaríu, dönskusletturnar komu þar sterkar inn. Hún fór líka í bæinn á „þolllák“ (Þorláksmessu) en það er önnur saga og meiri málýska.

En aftur að eldhúsbekknum. Á mínum eldhúsbekk stendur Kitchenaidin góða, kaffivélin, þar er bakað, eldað og brasað. Og á góðum sumarfrísdögum þegar frúin dregst seint frammúr til að hella uppá morgunkaffið, þá stend ég við eldhúsbekkinn á brókinni. Og þar hafið þið það.


Σχόλια


bottom of page