Í upphafi ætlaði ég að rita um aðstöðu í listmenginu, list á landsbyggð. Þegar ég fór hinsvegar að huxa, þá komst ég að því að rétt væri að hafa a-orðin tvö. Aðstaða og aðstæður til lista á landsbyggð. Enda skaut öðru orðinu ávallt upp þegar huxað var um hitt orðið. Það er nefnilega ekki nóg að hafa aðstöðu til lista ef engar eru aðstæðurnar. Sama má segja um að ekkert gagn er í hlutunum ef við höfum bara aðstæður en enga aðstöðu. Ég veit þetta hljómar strax einsog einhver algebra og þarfnast ekki nánari pælingar. Miklu betra að gera einsog Göte gamli sagði, að hefjast handa.
Ræðum ekkert hugtakið leikhús er ekki hús, eða hver þarf hús til lista. Segjum heldur list þarf aðstöðu. Það þarf stað til að skapa og iðka sína list. Aðstaðan getur verið eins fjölbreytt og verkefnin eru mörg og um leið listin er ólík.
Fyrir skáld gæti verið nóg að hafa borð við suður glugga meðan danshópur þarf sléttan flöt helst fimm metra á breidd og jafnmikið á lengdina og ekki verra ef dansdúkur er til í rýminu. Það eru rými útúm allt sem vantar tilgang og hvað þá út á landsbyggð. Fátt er gagnlegt við að hús standi auð og hvað þá að þar sé myrkur alla daga ársins. Samt sem áður eru þessi myrku hús kynnt upp og af þeim greidd gjöld. Af hverju ekki að fylla þau heldur lífi og tilgangi.
Það hefur líka oft gerst að þegar list hefur komið í einmanna hús þá einsog allt í einu taki allir eftir þessum gleymda húsræfli. Það sem verra er, já verra, að það kemur eitthvað monnípeningafólk og kaupir það. Þessi saga hefur oft gerst í listasögu landsbyggðarinnar.
Talandi um aðstöðu þá má ekki gleyma öllum félagsheimilunum. Ætli þau séu ekki nærri 200 talsins. Mörg þeirra eru í góðri og stöðugri notkun, vel tækjum búin og iðandi af lífi. Svo eru líka enn fleiri sem mega muna sitt hús líflegra. Það er kannski fullt með ljósakösturum í lofti en engin þeirra í sambandi og stiginn gamli til að príla í til að setja ljósin í samband fór í ruslið fyrir síðustu aldamót. Það er einföld staðreynd að þegar húsum er ekki sinnt þá minnkar notkun þeirra. Í sumum er kannski bara haldin fatamarkaður og þorrablót. Samt er verið að kynda þessi hús og greiða af þeim gjöld. Hér er komið einstakt tækifæri fyrir list á landsbyggð. Að bjóða listamönnum að nýta þessi hús til listsköpunnar sinnar. Hvort heldur það eru heima listamenn eða aðkomu listamenn. Hvað væri betra fyrir atvinnuleikhóp er streðar við að skapa í 105 en að fara t.d.í 675 hvar er þetta flotta félagsheimili og æfa þar sitt leikverk í ró og næði. Leikhópurinn þarf svo meiri aðstöðu í viðkomandi póstnúmeri, einhvern stað til að gista á.
Þá komum við að listamannaíbúðunum sem hafa ekki verið að spretta upp einsog gorkúlur heldur frekar læðast inn á markaðinn á landsbyggðinni einsog belgbaunir frá Fljótavík. Landsbyggðin heftur aðstöðuna. Það er bara að opna myrku húsin og þá munu ljós þar skýna á ný.
Stundum er þetta einsog sjúklingurinn sagði við heimilislækninn, það er einsog það sé einhver fyrirstaða. Og í þeirri stöðu er bara að finna leiðina. Það þarf ekkert endilega að vera slæmar aðstæður að búa í fámenni. Skáldið kannski í mun betri stöðu en leikarinn sem þarf kannski ekki að sýna nema einu sinni sinn leik og þá hafa allir bæjarbúar séð hann. Þá þarf að fara í leikferð og það kostar hvað þá ef þarf að fljúga millum staða, ræðum það nú ekkert. Enda eitt af þeim dæmum sem fittar aldrei í excel skjalinu. Aðstæðurnar til trafala á landsbyggð eru fleiri einsog aðgangur að verslunum og þjónustu.
Það vita það allir að þjónusta á landsbyggð hefur fylgt sunnanáttinni einsog svo margt annað. Þó netið með sinni netverslun sé dásamlegt þá þarf maður að geta gert meira en bara séð. Ef það vantar t.d. ákveðið efni í búning þá er ekki nóg að sjá, það þarf líka að finna efnið með berum höndum. En það eru tækifæri í öllum stöðum. Það er hægt að byggja upp sitt eigið leikhús eða gallerý sem verður svo geggjað að fólk verður bara að gera sér sérstaka ferð á viðkomandi stað til að upplifa verkið. Pælið nú í öllum efnahagslegu áhrifunum við það.
Gestum mun vanta gistingu sem mat og svo alla drykkina mar‘, skál í boðinu bara. Svo er bara að vera soldið skipulagður, byrja fyrr að undirbúa verkið og nýta því hina árlegu suðurferð til að kikka í verslanir. Sparar um leið sendingarkostnað með því að kippa þessu bara upp í þína eigin bifreið.
Verum soldið opin. Opnum myrku húsin og opnum eigin huga. Með því fær list á landsbyggð A á öllum sviðum.
Texti: Elfar Logi Hannesson
Comments