top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Búið að plægja akurinn fyrir austan


Karna Sigurðardóttir, Austurland, menning, úr vör, vefrit
Leikstjórinn Karna Sigurðardóttir. Ljósmynd Karna Sigurðardóttir

Leikstjórinn Karna Sigurðardóttir hefur komið að ansi mörgum menningartengdum verkefnum á Austurlandi síðastliðin ár. Blaðamaður ÚR VÖR tók tal af henni á dögunum með það fyrir augum að skyggnast inn í hugarheim þessarar menningarspíru að austan.

Karna býr sem stendur í Neskaupstað en er er alin upp á Héraði og var þar til 16 ára aldurs. Að sögn Körnu fór hún eftir það á hálfgert flakk hingað og þangað, sem var eitthvað sem hún ætlaði sér frá unga aldri.

Það má færa sterk rök fyrir því að það flakk hafi komið sér vel fyrir Austurland því glöggt er gestsaugað og eftir að hafa verið í burtu hefur hún verið gjörn að taka eftir því hvað vanti á heimaslóðir er snýr að menningu og listum. Hún er samt sem áður eins og segir kunnug staðarháttum, skilur samhengið og hefur rýnt í sjávarþorpin fyrir austan síðustu misseri.

Karna gerði heimildarmyndina 690 Vopnafjörður og vann að því verkefni í yfir fimm ár, en unnið var að myndinni frá árinu 2012 til 2017. Myndin er samfélagsrýni og segir Karna að hún hafi að þessu sinni ekki verið að búa til verkefni eða að stuðla að þróun, heldur meira verið að hlusta, skynja og bergmála það sem hún sá í samfélaginu. „Sú mynd stendur mér nærri, ég var í góðum tengslum við þorpið og þetta var langt ferli. Ég þekkti Vopnafjörð ekki neitt nema sem gestur og það tók langan tíma að ná trausti og að skynja og skilja kjarnann í samfélaginu. Ég eignaðist tvö börn og einn stjúpson meðan myndin var í vinnslu og margt gerðist í þessu ferli.

Designfromnowhere, Austurland, úr vör, vefrit
Hugleitt við höfn fyrir austan. Ljósmynd Designfromnowhere

„Þegar við kláruðum myndina þá vorum við ekki viss um hvort svona mynd gæti verið áhugaverð utan Vopnafjarðar, utan Austurlands eða utan Íslands yfir höfuð. Við vissum ekki alveg hvað við vorum með í höndunum.“ segir Karna.

Myndin var sýnd fyrst á Skjaldborgarhátíðinni, hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði. Að sögn Körnu sögðu margir henni þá að myndin væri ekki bara um Vopnafjörð heldur um Ísland. Myndin er upplifunarmynd sem svarar ekki spurningum heldur snýst meira um innra ferðalag að sögn Körnu sem segir að myndin hafi ferðast víða um heim og verið talsvert vinsæl í Frakklandi.

„Þar var til dæmis Parísarbúi sem sagði mér að þessi mynd fjallaði allt eins um samband sitt við staðinn sem hann býr á, af hverju hann býr þar og hvernig maður lifir í samfélaginu. Það var gott að heyra og við reyndum að fylgja myndinni eins og við gátum og vera viðstödd sýningar í Evrópu, þar sem við tókum á móti spurningum eftir sýningu.
Designfromnowhere, Karna Sigurðardóttir, Austurland, menning, úr vör, vefrit
Karna segir að það hafi komið sér vel að hafa gestsauga sem og að vera kunnug staðarháttum fyrir austan. Ljósmynd Designfromnowhere

„Það var stór hluti af ferlinu að taka það samtal og voru viðbrögðin oftar en ekki mjög áhugaverð. Samtalið var í heildina mjög tengt kjarnanum sem við vorum að reyna að fanga.“ segir Karna.


Hún var alin upp á bökkum Lagarfljóts og segist hafa þekkt hverja steinvölu, hvernig hún gæti stokkið yfir lækinn á vorin og hvernig hún þurfti að halda sig frá honum á veturna. „Þetta var alveg óttalaus veröld, ég var mikið á hestum í kringum sveitabæinn hjá ömmu og afa, þetta var mikið frelsi og snérist um að vera í núinu. Ég hafði ekki miklar áhyggjur og var ekki mikið að velta hlutum fyrir mér.

„En það var kraumandi undiralda því ég var í leit að einhverju, upplifunin var að ég væri stolt af upprunanum og að ég ætti þennan heim, en frá því að ég var ungt barn var ljóst að ég væri að leita að stærri veröld. Að það væri eitthvað annað sem ég ætti eftir að stíga inní og spurði sjálfa mig hvort ég ætti ekki að vera einhversstaðar annarsstaðar.“
Designfromnowhere, Austurland, sjávarþorp, úr vör, vefrit
Karna hefur rýnt í sjávarþorpin fyrir austan undanfarin misseri. Ljósmynd Designfromnowhere

Samkvæmt Körnu hafa sterkar konur byggt upp menningarlífið og menningarlegt hugarfar á Austurlandi síðastliðin 15 til 20 ár, algjörar ofurkonur sem hafa plægt akurinn fyrir aðra. „Þegar ég kem inn og byrja að vinna og læra af þeim og að koma með hugmyndir þá fann ég að ég hefði aldrei getað gert það sem ég var að gera, ef þær hefðu ekki komið á undan mér.

„Ef þú ert að tala um menningartengd verkefni á Austurlandi í dag þá þarftu ekki að byrja alveg á byrjunarsamtalinu og reyna að sannfæra fólk um að menning sé málið, við erum alveg komin skrefinu lengra en það.

„Fjarðarbyggð var komin aðeins afturúr, en þegar ákveðið var að stofna skyldi menningarstofu og ráða menningarfulltrúa sem hafði ekki verið áður, þá sáum við rosalega hraða hugarfarsbreytingu. En við þurfum að sá og rækta svörðinn til að það spretti eitthvað upp og það er auðvitað eilífðarverkefni.“ segir Karna.

Designfromnowhere, vinnustofa, menning, Austurland, úr vör, vefrit
Góð tengsl og sambönd geta myndast í gestavinnustofum. Ljósmynd Designfromnowhere

Að sögn Körnu er ljóst að hugarfarsbreyting hafi orðið á heimsvís í þá átt að fólk leitist í að flytja úr borg í sveit. Hún segist vita mörg dæmi um fólk sem flytji tímabundið á landsbyggðina og sé kannski á einhverju flakki á milli. „Mér finnst mikilvægt að við hættum að hugsa um að það eina sem skipti máli sé eitthvað lögheimili og að alltaf sé verið að telja íbúatöluna í sveitarfélaginu. Fólk sem er kannski hluta úr ári á staðnum er ekki talið með og því á vissan hátt hafnað af samfélaginu.

„En það er svo mikill auður í fólki sem er að koma og fara. Það heldur sér á tánum og bæði þekkir til á staðnum og er einnig með gestsaugað. Við verðum að horfa í fjársjóðinn í þessu fólki og að líta á þetta fólk sem mikilvæga bæjarbúa rétt eins og aðra.“ segir Karna.
Designfromnowhere, vinnustofa, Austurland, úr vör, vefrit
Frá vinnustofu á vegum Designfromnowhere á Austurlandi. Ljósmynd Designfromnowhere

Karna segir það gefandi að sjá hvernig menningarstarf geti opnað gáttir þegar kemur að börnum. Segir hún það morgunljóst að þau eflist og styrkist þegar þau fái meiri næringu á sviði menningar og lista. „Dæmi er um börn sem upplifa sig sem óþekka barnið og eru skömmuð fyrir að geta ekki verið eins og hinir, koma svo í skapandi kennslu og eru jafnvel framúrskarandi þar. Þetta getur haft mikil áhrif á sjálfsmyndina.

„Það þarf rétta fólkið og verkfærin til að upplifa saman og skapa og það er lykilatriði að börnin fái fjölbreyttar fyrirmyndir á sem flestum sviðum. Og þetta hefur ekki bara áhrif á börnin, heldur líka á kennara og foreldra, það hefur verið mjög áhrifaríkt að sjá fólk anda þessu öllu að sér saman og sjá viðhorf samfélagsins til menningar styrkjast fyrir framan nefið á okkur.“ segir Karna að lokum.


Comments


bottom of page