Hljómsveitin Between Mountains hefur fengið afar góða dóma frá því hún var stofnuð snemma árið 2017. Það eru Vestfirsku stúlkurnar Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Katla Vigdís Vernharðsdóttir sem skipa hljómsveitina og heilla þær með líflegum og einlægum flutningi hvar sem þær koma.
Ásrós, sem er frá Núpi í Dýrafirði og Katla frá Suðureyri sigruðu Samvest sem er undankeppni Samfés árið 2017, skömmu eftir að þær byrjuðu að spila saman. Þær sigruðu svo Músiktilraunir örlítið síðar og létu ekki þar við sitja heldur hlutu þær einnig titilinn „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2017.
Myndband við lag hljómsveitarinnar, “Into the Dark” var tekið var upp á Vestfjörðum hlaut verðlaun sem besta tónlistarmyndband ársins á síðasta ári á Northern Wave Film Festival, kvikmyndahátíð sem haldin er árlega á Rifi á Snæfellsnesi. Blaðamaður ÚR VÖR náði tali af þeim stúlkum á milli kennslustunda í Menntaskólanum á Ísafirði á dögunum og fékk fréttir af því hvað væri framundan hjá þeim.
Þær Ásrós og Katla segja að það séu spennandi tímar framundan. Þær eru þessa dagana að vinna í nýju efni og eru einnig búnar að vera að taka upp EP plötu síðan í haust sem kemur út á komandi sumri. „Við erum búnar að vera að vinna það hægt og rólega, erum að vinna með Arnari Guðjónssyni og erum mjög spenntar að koma því út. Svo væri gaman að gera annað myndband líka“ segja þær stöllur.
Hljómsveitin mun spila fyrir vestan um páskana, en hafa ekki tilkynnt ennþá hvar eða hvenær. Þær spiluðu á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á síðasta ári og munu því ekki taka þátt í ár, enda geta tónlistarmenn ekki tekið þátt tvö ár í röð þar. Þær segja að það hafi verið afar mikið að gera hjá þeim síðastliðið sumar. „Það er aðal ástæðan fyrir því að platan er ekki tilbúin, það var svo brjálað að gera! En það var rosalega gaman, við spiluðum t.d. á Bræðslunni sem var ótrúlega skemmtilegt.“ segja þær Ásrós og Katla.
Að sögn þeirra hefur umhverfið á Vestfjörðum mótað þær mjög mikið og að gaman sé að hafa þá sérstöðu að vera þaðan. Þær segjast fá talsverða athygli fyrir það.
„En það eru forréttindi að fá að alast upp á svona stað. Maður lærir líka rosalega mikið að taka fólki eins og það er. Það eru svo fáir hér og maður er kannski með fjórum öðrum í bekk. Það er því ekki hægt að velja sér vini, heldur verður maður að láta þetta ganga eins og það er. En það eru mikið fleiri kostir en gallar við að alast upp hér fyrir vestan.“ segja þær.
Þær segja að það hafi hjálpað mikið að taka þátt í Músiktilraunum á sínum tíma. Það hafi verið afar góð reynsla og tækifæri til að spila í Hörpu. „Þar eru flottir hljóðmenn, flottar græjur, allt í topp standi. Það er gott að fá að kynnast því þegar þú ert að byrja. Svo kynnist maður mörgum og getur myndað tengslanet sem er gott síðar meir því þá geturðu leitað til einhvers og fengið hjálp.“ segja Ásrós og Katla. Aðspurðar eru þær ekki lengi að svara því hvaða ráð þær myndu gefa ungu tónlistarfólki sem langar að hefja sinn feril. Að spila nógu mikið og spila með öðrum
„Ekki vera að bíða eftir neinu! Þú ert svo oft að bíða eftir hinu og þessu, en það borgar sig að gera þetta sjálfur og vera upp á sig sjálfan kominn. Það er bara um að gera að byrja og vera bara með lélegt efni í einhvern tíma. Síðan verðurðu betri og maður lærir bara í leiðinni.“
Þær eru sammála um að stílinn þeirra hafi þróast talsvert síðan þær byrjuðu að spila saman og segja að þegar þær tóku þátt í Músiktilraunum hafi þær ekki verið alveg búnar að ákveða hvaða stefnu þær ættu að taka. Á plötunni sem kemur út í sumar verður efnið sem þær hafa spilað undanfarið ár.
„Við hefðum getað farið út í þjóðlagatónlist eins og Ylja til dæmis, sem er alveg frábært, en við völdum aðra leið. Á nýju plötunni er fjölbreytt efni, ýmis litbrigði á lögunum. Það eru lög sem eru sykurpoppuð og svo önnur rólegri lög, en við lofum engu! “ segja þær í kór.
Ásrós og Katla segja að velgengnin hér á landi hafi komið þeim á óvart og að þær hafi vissulega áhuga á að spila fyrir fólk erlendis. Þær segja að tæknin í dag geri það kleift að vera búa lengur á heimaslóðum og að markhópur sé í raun fyrir öllu.
„Netið hjálpar mjög mikið við að koma efninu sínu út. Það er fullt af fólki að hlusta á okkur út í heimi og megnið af fólkinu sem hlustar á efnið okkar á Spotify er frá Brasilíu held ég!“ segir Katla að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments