Á dögunum kom út bókin Isle of Art sem fjallar um listasenuna á Íslandi og er eftir þýsku blaðakonuna Söruh Schug og vinkonu hennar, belgíska og ungverska ljósmyndarann Pauline Mikó. Þær ferðuðust saman hringinn í kringum Ísland, ekki einu sinni heldur í tvígang til að komast að því hvernig listasenan hefur breyst hér á landi í gegnum tíðina.
Á leið sinni veltu þær fyrir sér spurningum eins og; hvað það þýðir að vera listamaður á lítilli eyju í miðju Atlantshafi og hvernig það er að búa hér? Hverjir eru kostir og gallar að sinna list sinni í svona litlu samfélagi og margt fleira.
Blaðamaður ÚR VÖR mælti sér mót við Söruh á dögunum með einni aðferð nútímans, forritinu Whatsapp, og fékk að heyra hvernig gerð bókarinnar gekk og um reynsluna í því ferli. Sarah segir að hún hafi orðið ástfangin af landi og þjóð þegar hún var sjö ára og sá fyrsta þáttinn af Nonna og Manna.
„Ég var heilluð af Nonna og Manna og því sem ég sá í sjónvarpinu. Torfbæjunum, hestunum og náttúrunni. Svo kom ég hingað í kringum árið 2009 og var yfir mig ástfangin í annað sinn. Ég hélt svo áfram að koma hingað næstu ár á eftir og á endanum, þar sem ég var að skrifa talsvert um list í vinnu minni sem blaðamaður, spurði ég sjálfa mig; hvað með list á Íslandi?“ segir Sarah.
Sarah segir að hún hafi verið að leita að bók um list hér á landi, en ekki fundið mikið um það. Að hennar sögn er talsvert til af efni um einstaka listamenn en ekki mikið um list hér á landi í heildina, þ.e. ekkert yfirlit sem hjálpar manni að kynnast listasenunni hér betur. Hún segir að fyrst hafi hún ekki verið viss um hvort hún myndi finna nóg efni fyrir bók og hvort þetta yrði áhugavert, en það kom í ljós að það voru óþarfa áhyggjur.
„Ég dvaldi á Íslandi í tvo mánuði í byrjun árs 2017. Mér fannst ég þurfa að kynnast listafólki og sjá og heyra hvaða nöfn kæmu upp aftur og aftur. Rannsóknarvinnan var að miklu leyti um samtal, að fara í gallerý og svo fórum við tvisvar í kringum landið og tókum viðtöl og myndir.“ segir Sarah.
Ástæðan fyrir því að ferðirnar í kringum landið voru tvær var sú að þær komust ekki á alla áfangastaði í fyrra skiptið. Sarah segir að yfir vetrartímann hafi ekki verið hægt að heimsækja alla staði vegna snjóþunga. „Það voru oft snjóbylir og erfitt að komast á milli. Við þurftum að keyra mjög hægt og oft þurftum við að snúa við og reyna aftur síðar. Þannig að það er óhætt að segja að við þurftum að aðlaga okkur aðstæðum og veðrinu!“ segir Sarah.
Að sögn Söruh hafi ánægjulegasti hluti verkefnisins að kynnast listafólkinu og eiga samtal við það. Hún segir að allir hafi verið mjög opnir, hreinskilnir og til í að segja sögu sína og bætir við að þessi sambönd sem þeim hafi tekist að mynda séu virkilega verðmæt.
„Fólk bauð okkur að gista á heimilum sínum, að kynnast list sinni og tala um hana. Það sem var mest krefjandi við ferlið var að ganga úr skugga um að bókin yrði gefin út. Við vorum ekki með áætlun fyrirfram, við fórum af stað með rannsóknarvinnuna og í fyrstu vildum við finna útgefanda og héldum að yrði auðvelt.
„En annað kom í ljós, útefundum fannst þetta þröngur vettvangur og að Ísland væri of lítið land. En við vorum ósammála og við þurftum því að gefa út bókina sjálfar. Við erum mjög ánægðar með þetta verk, því við vildum gera þetta á okkar forsendum og það er einungis hægt ef þú gefur út sjálfur, sem betur fer var það mögulegt með hjálp margra.“ segir Sarah.
Sarah segir að hún hafi ekki verið með neinar væntingar fyrirfram og ekki vitað hvernig verkefnið myndi fara. Hún segir að það hafi komið henni mest óvart að allir virðast þekkja alla hér á landi. „Líkt og þegar við ferðuðumst um landið, þá hafði fólk heyrt af okkur, því vinir þeirra í Reykjavík höfðu sagt þeim frá okkur. Allir voru svo hjálpsamir og komu okkur í samband við aðra. Það var ánægjulegt því víða erlendis er listaheimurinn meira lokaður og fólk er að keppa við hvort annað og er ekki eins vinalegt, þannig að það var virkilega gaman að sjá þetta.“ segir Sarah.
Verkefnið tók tvö ár samkvæmt Söruh og var langt ferðalag líkt og kom áður fram. Vinkonurnar gerðu allt sjálfar og er um stóra og mikla bók að ræða, sem er meira en eitt kílógramm að þyngd.
„Ísland er lítið og fámennt land en eftir að hafa skoðað listasenuna hér þá er það vel samanburðarhæft við önnur lönd hvað varðar listasenuna. Hér eru stofnanir, gallerý, og listavinnustofur víða og það sem mér fannst mjög áhugavert er viðmót listafólksins varðandi að gera hlutina sjálf. Þau bíða ekki eftir að gallerý hafi samband, þau setja sjálf upp gallerý, bretta upp ermar og vinna mikið. Ég kann virkilega vel að meta það.“ segir Sarah.
Að hennar sögn er ljóst að það sé ekki bara um eina stefnu að ræða þegar kemur að list heldur sé um afar fjölbreytta senu að ræða. Hún segir það einnig aðdáunarvert hversu lítið fólk er háð því að selja verk sín.
„Það er ekki pressa tengt listamarkaðnum. Víða erlendis er fólk að reyna að selja list sína á fullu, en hér er það ekki raunin, fólk er að vinna að list því það vill vinna að því, það er listafólk og er ekki háð markaðnum.“ segir Sarah.
Bókin kom út þann 3. apríl síðastliðinn og hægt er að panta hana á netinu. Einnig eru komin til landsins 150 eintök og mun Sarah koma þeim í búðir og söfn á næstu dögum. Hún segist vonast til að hægt verði að vera með smá lager hér á landi og að áætlunin er að halda útgáfuhóf í vor. „Við verðum með einhvern viðburð í Brussel þar sem við höfum aðsetur og svo langar okkur að halda eitthvað hóf hér á Íslandi, áður en fólk fer í sumarfrí, það væri gaman!“ segir Sarah að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments