top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ull er gull


Textílmiðstöð Íslands, Blönduós, textíl, ull, Elsa Arnardóttir, úr vör, vefrit
Elsa Arnardóttir, forstöðumaður Textilmiðstöðvar Íslands. Ljósmynd Textílmiðstöð Íslands

Textílmiðstöð Íslands - þekkingarsetur á Blönduósi starfar í sögufrægri og fallegu byggingu Kvennaskólans á Blönduósi. Miðstöðin varð til vegna sameiningar Textílseturs Íslands og Þekkingarsetursins á Blönduósi. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði á dögunum í Elsu Arnardóttir, forstöðumanni miðstöðvarinnar og fékk að heyra allt um það hvað fer fram hjá þeim.


Samkvæmt Elsu þá er búið að samræma starf miðstöðvarinnar, komin er ný stjórn og verið er að horfa í nýsköpunarþáttinn sem býður upp á marga möguleika. Hún segir að miðstöðin sé í góðu samstarfi við myndlistarskólann í Reykjavík og hafi fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna varðandi nýsköpun í textíl.

Unnið er að rannsóknarverkefni sem Ragnheiður Björk Þórsdóttir listakona og kennari stýrir. Í verkefninu felst að gömul vefnaðarmynstur eru færð yfir á stafrænt form sem nemendur í nýsköpunarsjóðsverkefninu koma til með að nýta sér til að skapa nýja textílvöru.
Textílmiðstöð Íslands, Blönduós, textíll, ull, úr vör, vefrtit
Textílmiðstöð Íslands er staðsett á Blönduósi. Ljósmynd Róbert Daníel Jónsson

Elsa segir að hátíðin Prjónagleði sé á dagskrá í júní mánuði næstkomandi. Um er að ræða handverkshátíð þar sem verða sölubásar, námskeið, kareókí og ýmislegt skemmtilegt. „Við verðum svo með í sumar lista- og vísindasmiðjur í samstarfi við Biopol á Skagaströnd, Listaháskólann og vísindalestina í Háskóla Íslands.

Þar erum við að vekja athygli á umhverfismálum með því að safna rusli af fyrirfram tilgreindum svæðum hér á norðurströndinni. Í framhaldinu verða búnar til vörður úr því efni sem safnast til að vekja athygli á mengun hafsins og umhverfismálum.“ segir Elsa.

Að sögn Elsu er markhópur miðstöðvarinnar textíl listafólk. Hún segir að í umsjá miðstöðvarinnar sé textíl listamiðstöð og þau fái fólk allstaðar að úr heiminum. „Eins og þegar prjónagleðin verður hér í sumar þá mun mexíkósk listakona vera með fyrirlestur um textíl í Mexíkó. Það er mjög spennandi því fá lönd í heiminum eru jafn rík af textíl hefð eins og Mexíkó. Þannig að það er handverkið, það er listsköpunin, hönnunin og nýsköpunin sem þetta snýst um hjá okkur.“ segir Elsa.

Textílmiðstöð Íslands, textíll, Blönduós, ull, úr vör, vefrit
Námskeið eru haldin reglulega í Textílmiðstöð Íslands. Ljósmynd Nathalie Malric

Samkvæmt Elsu eru fáar atvinnugreinar eins mengandi eins og textíllinn sem hún segir vera önnur eða þriðja mest mengandi atvinnugrein í heiminum. Hún segir að mikilvægt sé að á Íslandi fari fólk að hugsa meira um innanlandsframleiðslu og hráefnið sem við eigum hér hjá okkur. „Við þurfum að huga að íslensku ullinni, efla nýsköpun varðandi hana og vinna með á allan mögulegan hátt, því þetta er frábært hráefni. Það hefur verið töluverð áherslu á vefnaðarvöru hér hjá okkur, en eins og staðan er í dag þá er ekki hægt að framleiða neina vefnaðarvöru í landinu.

„En hér hjá okkur er stafrænn tölvuvefstóll sem hægt er að vinna að listsköpun og hönnun þannig að við viljum vera skapandi staður þar sem hönnuðir, listamenn og handverksfólk geti komið, bætt við þekkingu sína og unnið saman að skapandi verkefnum í samstarfi við skóla, fyrirtæki og rannsóknaraðila.“ segir Elsa.
Textílmiðstöð Íslands, Blönduós, textíll, ull, úr vör, vefrit
Íslenskar konur hafa almennt séð góða handverkskunnáttu að sögn Elsu Arnardóttur. Ljósmynd Textílmiðstöð Íslands

Elsa segir að möguleg samfélagsleg áhrif miðstöðvarinnar geti verið mikil á svæðinu. Hún segir að ef horft sé á ullina og sauðfjárbúskapinn, þá sé hægt að nýta tækifærið og vinna ullina enn frekar. Ekki þurfi að hugsa í einhverjum stórum lausnum, heldur að búa til eitthvað einstakt og eftirsóknarvert og það gefi meiri möguleika að skapa störf í dreifbýlinu.

„Það væri til dæmis gott tækifæri að efla aðgengi fólks og kunnáttu í stafrænu tækninni. Íslenskar konur hafa almennt mjög mikla handverkskunnáttu, kunna að prjóna og hekla og ég efast um að það séu margir staðir í heiminum þar sem jafn margir kunna að spinna. En það þarf að þróa handverkið áfram og tengja það við stafrænar aðferðir.“ segir Elsa.

Í textílmiðstöðinni er boðið upp á gestavinnustofur, átta til níu manns geta dvalið á sama tíma og er lágmarksvöld einn mánuður. Einnig eru settar upp listasýningar í hverjum mánuði. Að sögn Elsu eru vonir bundnar við að geta boðið upp á betri tæki og tól til að skapa vinnuaðstöðu og halda námskeið sem henta betur íslenskum hönnuðum og listafólki. „Þá getur fólk komið í styttri tíma og lært á stafrænu tæknina og nýtt sér að prófa stafræna vefstólinn sem er til staðar hjá okkur.

Textílmiðstöð Íslands, Blönduós, gestavinnustofur, textíll, ull, úr vör, vefrit
Boðið er upp á gestavinnustofur í Textílmiðstöð Íslands og geta 8 til 9 manns dvalið þar samtímis. Ljósmynd Textílmiðstöð Íslands

„Með því að hafa á einum stað gott aðgengi þá getur fólk prófað sig áfram og þróað vöru sína. Það var hér félag vefnaðarkennara á námskeiði fyrir ekki löngu síðan og voru yfir sig hrifnar af stafræna vefstólnum, þær gátu varla hætt, gátu varla sofið!“ segir Elsa og hlær.

Að sögn Elsu vantar örlítið meira upp á tækjakost og væri óskandi að geta haft starfsmann með sem hefur tæknilega þekkinguna til að komast á þann stað sem þau vilji vera á. Hún segir að miðstöðin sé mjög vel í sveit sett, í næsta húsi við miðstöna sé skemmtilegt safn, öll ull á Íslandi er þvegin á Blönduósi. Í næsta firði er svo fyrirtæki í heimsklassa varðandi að vinna með fiskroð, á Hvammstanga er ein af fáum prjónaverksmiðjum á landinu og svo bendir Elsa á að þau séu staðsett í sauðfjárhéraði.

Textílmiðstöð Íslands, Blönduós, textíll, ull, úr vör, vefrit
Settar eru upp listasýningar í hverjum mánuði á vegum Textílmiðstöðvarinnar. Ljósmynd Textílmiðstöð Íslands

„Okkur er tekið afskaplega vel. Stjórnin okkar er mjög sterk og eigum við gott bakland í fulltrúaráðinu, stjórn og varastjórn. Það voru góðar undirtektir þegar við fórum fram á að fjölga í stjórninni og í fulltrúaráðinu og fá inn meiri fagþekkingu. Ég hóf störf hér fyrir rúmu ári og hef frábærar samstarfskonur sem allar hafa sína sérþekkingu og áhuga.

„Fólk sem vinnur í þessum geira hefur ástríðu fyrir honum og jarðvegurinn núna er mjög frjór. Fólk er að uppgötva hvað við eigum frábært hráefni í íslensku ullinni og er að uppgötva alla þá möguleika sem eru til staðar. Um miðja síðustu öld, þegar sem mest var flutt út af ull, þá var slagorðið ull er gull. Við þurfum að koma því aftur á!“ segir Elsa að lokum og aftur er stutt í hláturinn.


bottom of page